Auglýsing

Fimm íslenskir kylfingar tóku þátt á þremur mótum á GolfStar Winter Series á Spáni. Mótin voru öll hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni – sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.

Það er að miklu að keppa á Nordic Golf League – en með góðum árangri á mótaröðinni opnast dyr inn á Challenge Tour mótaröðina, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu, á eftir DP World Tour.

Smelltu hér fyrir keppnisdagskrá, úrslit og stigalista.

Fimm efstu kylfingarnir á stigalista Nordic Golf League í lok tímabilsins öðlast keppnisrétt á Challenge Tour. Ef kylfingar sigra á þremur mótum á Nordic Golf League fá þeir einnig keppnisrétt á Challenge Tour – en aðeins fimm keppendur komast í heildina inn á Challenge Tour af Nordic Golf League á hverju ári.

Bjarki Pétursson og Hlynur Bergsson, báðir úr GKG, náðu bestum árangri íslensku keppendana – en Bjarki endaði í öðru sæti á þriðja mótinu sem lauk í gær. Árangur Bjarka á mótunum þremur var 13. sæti, 25. sæti og 2. sætið. Bjarki er í sjötta sæti á stigalista Nordic Golf League mótaraðarinnar.

Þess má geta að Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús hafa allir fengið keppnisrétt á Challenge Tour með góðum árangri á Nordic Golf League mótaröðinni.

Hlynur Bergsson er í 29. sæti á stigalistanum – en hann varð í 8. sæti á öðru mótinu í þessari keppnistörn, en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum. Hlynur keppir fyrir golfklúbb í Óðinsvéum í Danmörku en hann keppir einnig fyrir GKG.

Kristófer Orri Þórðarson og Ragnar Már Garðarsson, sem eru einnig úr GKG, kepptu einnig á þessum þremur mótum. Kristófer Orri varð í 24. sæti á fyrsta mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn á síðustu tveimur mótum. Hann er í 55. sæti á stigalistanum.

Ragnar Már endaði í 45. sæti á fyrsta mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn á mótunum sem komu þar á eftir. Ragnar Már er í 84. sæti á stigalistanum.

Aron Bergsson, sem skráður er í Hills golfklúbbinn í Svíþjóð, er fimmti íslenski keppandinn. Hann hefur keppt undir merkjum GKG á Íslandsmótinu í golfi – en hann hefur verið búsettur í Svíþjóð frá barnsaldri. Þess má geta að Aron er bróðir landsliðskonunnar, Andreu Bergsdóttur, sem tók risastökk á heimslista áhugakylfinga í síðustu viku.

Aron tók þátt í tveimur mótum og er í 48. sæti á stigalistanum – en hann endaði í 32. sæti á fyrsta mótinu og 25. sæti á öðru mótinu.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ