Birgir Leifur Hafþórsson.
Auglýsing

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG komst í dag í gegnum 2. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina. Birgir lék á 70 höggum í dag eða -1 á Las Colinas vellinum á Spáni. Hann lék alla fjóra hringina undir pari vallar og var samtals á -9 (66-70-69-70) 275 högg.

Alls komust 18 kylfingar áfram af þessum velli. Þeir sem voru á -7 höggum eða betra skori eru í þeim hópi.

„Það er alltaf sama spennan á þessum mótum. Mér finnst gaman að því að slá góð högg undir pressu – það gerðist á lokahringnum. Þar gekk á ýmsu en ég var mjög öruggur á síðustu holunum og sló góð högg þegar mest á reyndi. Það sem tekur við hjá mér að hlaða rafhlöðurnar hérna á Spáni fyrir næstu törn sem hefst á laugardaginn. Þar þarf ég að leika hörkugolf sem þarf til þess að tryggja sér eitt af 25 efstu sætunum,“ sagði Birgir Leifur í dag við golf.is

Staðan á mótinu: 

Birgir Leifur er í 8. -12. sæti þegar þetta er skrifað hafa ekki allir lokið keppni. Þetta verður í 12. skipti sem Birgi Leifur leikur á lokaúrtökumótinu á Evrópumótaröðinni. Sú keppni hefst laugardaginn 14. nóvember á PGA Catalunya Resort á Spáni.  Þar verða leiknir sex 18 holu hringir og 25 efstu í mótslok fá keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

 

Screenshot (17).png

Birgir þurfti ekki að fara í gegnum 1. stig úrtökumótsins vegna stöðu sinnar á stigalista Áskorendamótaraðar Evrópu.

Evrópmótaröðin er næst sterkasta atvinnumannamótaröð heims á eftir PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum. Birgir Leifur, sem er 39 ára gamall, er eini íslenski karl kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Það gerði hann árið 2006 og lék m.a. á 18 mótum á Evrópumótaröðinni tímabilið 2006–2007. Hann tryggði sér keppnisrétt á ný á Evrópumótaröðinni 2007 með því að komast í gegnum lokaúrtökumótið á Spáni. Alls hefur hann leikið á 58 mótum á Evrópumótaröðinni á ferlinum.

Besta meðalskorið frá upphafi

Á þessu ári tók Birgir Leifur þátt á 9 mótum á Áskorendamótaröðinni, sem er sú næst sterkasta í Evrópu.

Meðalskor hans á þeim mótum var 70,75 högg sem er besta meðalskor Birgis á þeirri mótaröð frá upphafi. Alls hefur Birgir leikið á 106 mótum á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 og árangur hans á stigalistanum er sá þriðji besti frá upphafi – 92. sæti, og er hann búinn að tryggja sér keppnisrétt á um 10 mótum á næsta tímabili.

Fyrsta stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina fór fram á átta mismunandi keppnisvöllum. Um 900 kylfingar tóku þátt á þessum keppnisstöðum og komast um 25% þeirra áfram á annað stig úrtökumótsins eða rétt um 180 kylfingar.

Axel Bóasson, Ólafur Björn Loftsson og Þórður Rafn Gissurarson féllu allir úr leik á 1. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í haust.

Lokaúrtökumótið, sem er jafnframt 3. stig úrtökumótsins fer fram 14.–19. nóvember á Spáni. Þar mæta ekki aðeins til leiks þeir sem hafa náð í gegn á fyrstu tveimur stigum úrtökumótsins.

Þeir kylfingar sem náðu ekki að tryggja sér áframhaldandi keppnisrétt á tveimur sterkustu mótaröðum Evrópu, Áskorendamótaröðinni og Evrópumótaröðinni, fá tækifæri til þess að sanna sig að nýju á lokaúrtökumótinu. Þar eru 156 keppendur, leiknir eru sex hringir þar sem 25 efstu fá keppnisrétt á meðal þeirra bestu á næsta keppnistímabili á Evrópumótaröðinni.

 Aðeins 3% komast alla leið

Til þess að setja hlutina í samhengi má nefna eftirfarandi.  Aðeins tveir kylfingar af alls 924 sem hófu leik á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í fyrra komust í gegnum lokaúrtökumótið og tryggðu sér keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni. Það voru þeir Tom Murray and Daniel Woltman. Alls komust 27 kylfingar af lokaúrtökumótinu inn á Evrópumótaröðina sem er rétt um 3% af þeim sem reyndu fyrir sér í þessari erfiðu keppni.

Saga Birgis á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina er áhugaverð. Hann er að leika í 17. sinn frá árinu 1997 á úrtökumótinu. Alls hefur hann komist 11 sinnum inn á lokaúrtökumótið (3. stigið) og alls 14. sinnum hefur hann leikið á 2. stiginu og aðeins þrívegis hefur honum mistekist að komast ekki í gegnum 2. stig úrtökumótsins.

IMG_0241.JPG

Birgir Leifur Hafþórsson á Las Colinas í dag. Mynd/Stefán Már Stefánsson /SMS

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ