Þriðji keppnisdagur Íslandsmótsins í golfi 2025 fór fram í gær, þann 9. ágúst.
Mikil spenna var í loftinu á Hvaleyrarvelli. Sólin skein á keppendur, en vindurinn gerði mörgum erfitt fyrir annan daginn í röð. Meðalskor mótsins lækkaði um 3 högg á milli daga, sem var þó viðbúið, en einungis efri helmingur keppenda leikur síðustu tvo hringina.
Axel Bóasson hélt forystu sinni í karlaflokki og leiðir með tveimur höggum fyrir lokadaginn. Hann kom í hús á 72 höggum, pari vallarins og er sjö undir í heildina. Axel fékk þrjá fugla og þrjá skolla á hring dagsins. Enginn hefur sótt fleiri högg á völlinn en Axel, en hann er kominn með einn örn og þrettán fugla. Enginn hefur leikið par 5 holurnar betur en Axel, sem er þar með meðalskorið 4.33.

Dagbjartur Sigurbrandsson situr í öðru sætinu, tveimur höggum á eftir Axel. Dagbjartur lék á 73 höggum á þriðja hring. Munurinn á Dagbjarti og Axel var orðinn þrjú högg þegar þrjár holur voru eftir, en Dagbjartur fékk þá tvo af bestu fuglum dagsins og tókst að skera á forskotið.

Einungis einn hringur var leikinn á undir 70 höggum á þriðja keppnisdegi mótsins. Það var ríkjandi Íslandsmeistari karla, Aron Snær Júlíusson, sem lauk leik á 69 höggum. Aron tapaði fæstum höggum allra á hringum, en hann fékk einn skolla og fjóra fugla. Spilamennska Arons á fyrri níu holunum hefur vakið mikla athygli, en hann er þar ellefu undir pari í heildina, sjö höggum betri en Axel Bóasson. Á seinni níu holunum hefur Aron átt erfitt uppdráttar, og hefur leikið þær á átta höggum yfir pari. Góðar seinni níu á lokahringnum gætu því mögulega verið lykill hans að því að verja Íslandsmeistaratitilinn.

Í kvennaflokki hélt Hulda Clara Gestsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari, forystu sinni. Hún lék á 76 höggum á þriðja keppnisdegi og leiðir með fimm höggum. Hulda hefur fengið þrettán fugla í mótinu hingað til, en enginn keppandi mótsins er með fleiri fugla.
Eftir flotta spilamennsku framan af fékk Hulda þrjá skolla á síðustu þremur holunum. Hún hefur þó ekki enn sýnt nein merki um að titilvörnin sé í hættu, en spennandi verður að fylgjast með þróun mála í dag.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur elt Huldu eins og skugginn í mótinu. Hún lék einnig á 76 höggum á þriðja hring, og eru fimm högg sem skilja þær að.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir situr í þriðja sætinu, höggi á eftir Guðrúnu. Perla vann fjögur högg á Huldu og Guðrúnu á hring gærdagsins og hefur verið að leika flott golf. Hún er með flest pör allra kylfinga mótsins, alls 43 eftir fyrstu 54 holurnar.

Bein útsending RÚV frá mótinu hefst kl. 15:00 og mun standa þar til móti lýkur. Útsending síðustu daga hefur verið frábær og við hvetjum alla sem ekki geta mætt á völlinn til að fylgjast með!