Auglýsing

Fyrsta SNAG leiðbeinendanámskeiðið var haldið mars 2013 og nú hafa um 80 manns fengið þjálfun í að leiðbeina með SNAG kennslufræðinni á fyrsta stigi. Þessir 80 leiðbeinendur eru úr 27 sveitarfélögum á Íslandi og eru á aldrinum 14 ára til 80 ára. Í nýjasta tölublaði Golf á Íslandi er viðtal við Maríu Guðnadóttur íþróttakennara um SNAG og  hvernig hún notar þessa kennsluaðferð í íþróttakennslunni.

„Það sem heillaði mig var þessi einfaldleiki, stórar golfkylfur, golfboltar og sniðug hjálpartæki. Þannig að allir geta lært golf á skemmtilegan hátt, byrjendur, börn, unglingar, eldri borgarar og þeir sem eru aðeins farnir að fikta við golfið,“ segir María Guðnadóttir, íþróttakennari og lágforgjafarkylfingur í en hún hefur verið dugleg að kynna SNAG í Lindaskóla þar sem hún starfar. Viðtalið við Maríu er að finna í nýjasta tölublaði tímaritsins Golf á Íslandi sem kom út nýverið.

Hvernig heyrðir þú fyrst af SNAG?

„Ég sá kynningu hjá Magnúsi Birgissyni golfkennara og varð strax spennt og skellti mér á námskeið hjá honum og fékk SNAG leiðbeinendaréttindi. Það var mjög skemmtilegt og gagnlegt.“

Hvernig hefur starfsemin gengið hingað til?

„Ég er íþróttakennari við Lindaskóla í Kópavogi og fannst það sniðug hugmynd að skólinn myndi eignast SNAG. Ég fékk að kaupa útbúnaðinn og hef verið að kynna SNAGið fyrir nemendum skólans. Krakkarnir hafa verið mjög áhugasöm og hef ég fléttað SNAGið inní stöðvaþjálfun, þar sem 4-6 krakkar eru á hverri stöð. Dæmi um stöðvaþjálfun, er t.d. hástökk, SNAG, sippþrek, skólahreystiæfingar, skjóta niður medisinbolta (handboltaæfing). Síðan er SNAGið ein stöð á íþróttadögum sem við höldum á vorin fyrir 1.-7. Bekk. Það eru allir glaðir með þetta fyrirkomulag. Síðan þegar nemendur hafa kynnst íþróttinni, er von mín að við getum boðið SNAG sem val fyrir 9.-10. bekk, stelpuhópa, strákahópa eða blandaða hópa.“

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Mjög góðar og krökkunum finnst þetta mjög gaman, þau eru sko í GOLFI.“

Hefurðu einhver góð ráð fyrir aðra sem hafa áhuga taka þátt í útbreiðslu golfsins með SNAG.?

„Það er mjög gott að fara á námskeið, en það verður að vera einhver golfkunnátta hjá þeim sem ætla að leiðbeina í SNAGinu.“

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hver er forgjöfin?

„Ég byrjaði að fikta í golfi 30 ára, en fékk svo golfbakteríuna upp úr 35 ára aldri. Þá var ég búin að eiga alla strákana mína fjóra. Forgjöfin í dag er 4,7 og er enn á niðurleið. Ég er búin að vera dugleg að æfa stutta spilið,“ sagði María.

Þrír af hverjum fjórum eða um 75% PGA golfkennara sem nú starfa á Íslandi hafa lokið 1. stigs SNAG leiðbeinendanámskeiði. Fyrirhugað er að bjóða þeim golfkennurum sem hafa lokið 1. stiginu upp á framhaldsnámskeið á Level 2 á næsta ári. Þar læra þeir að nýta kennslu- og hugmyndafræði SNAGsins ennfrekar í þjálfun kylfinga og afreksfólks í golfi.

SNAG er nú komið í notkun hjá golfklúbbum og sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Kennt er eftir SNAG kennslufræðinni og með SNAG búnaði í víða um landið og kennsla hafin í nokkrum grunnskólum í íþróttatímum og í valáföngum og í félagsstarfi hjá fólki á öllum aldri. SNAG er einnig að færast inn í framhaldsmenntun bæði í íþróttafræði- og kennslu. Það eru því margir að taka sín fyrstu skref í golfi með SNAG á aldrinum 2ja ára og alveg uppúr.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ