Lokamót LET Access mótaraðarinnar fer fram á Gambito Golf Calatayud vellinum á Spáni dagana 16.-18. október. Í mótið mæta efstu kylfingar tímabilsins og er til mikils að vinna. Efstu sjö kylfingar stigalistans í lok tímabils vinna sér inn fullan þátttökurétt á LET (Evrópumótaröðinni) á næsta tímabili.
Atvinnukylfingarnir Ragnhildur Kristinsdóttir (Ragga) og Andrea Bergsdóttir hafa báðar leikið frábært golf í sumar og eru á meðal keppenda mótsins. Ragga situr í 6. sæti stigalistans fyrir lokamótið og Andrea í því 12.
Í frétt dagsins förum við yfir tímabil Andreu Bergsdóttur og tökum á henni stöðuna fyrir mótið á Spáni.
Þetta er fyrsta heila tímabil Andreu á LET Access mótaröðinni, en hún hafði leikið í þremur mótum mótaraðarinnar á síðustu þremur árunum.
Í sumar hefur Andrea leikið frábært golf. Hún hefur tekið þátt í sextán mótum og náð í gegnum niðurskurð í þrettán þeirra. Í níu mótum hefur hún verið á meðal efstu 20 og fjórum sinnum á meðal efstu 10.
Hennar besti árangur kom í Montauban Ladies Open í júní þegar hún endaði í þriðja sæti, einungis höggi á eftir fyrsta sætinu.

Golfsambandið náði á Andreu á dögunum.
Þú hefur leikið um alla Evrópu í sumar og fer lokamótið fram á Spáni. Í hvaða landi hefur þér fundist skemmtilegast að spila á tímabilinu og afhverju?
Það hefur verið skemmtilegt að spila á flestum stöðum en ég held að besta upplifunin hafi verið í Sviss. Mjög fallegt útsýni og náttúra svo maður naut þess að skoða sig um á meðan maður var á vellinum og líka extra gaman að foreldrar mínir komu og horfðu á. Svo gaf mótið í Montauban mér aukið sjálfstraust þar sem ég hafði átt gott mót á Spáni nokkrum dögum áður og sá að ég var farinn að klifra upp stigalistann. Ég fann að spilið byrjaði að smella og ég fékk meiri hvatningu til að bæta mig.
Nú er mánuður frá síðasta móti, hvernig hefurðu nýtt tímann í þessari löngu pásu?
Þetta var mjög þörf pása, tók viku frí frá golfi, hitti vini, eyddi tíma með fjölskyldunni og einbeitti mér meira að bata, líkamsrækt, hreyfigetu og andlegri þjálfun. Svo hafði ég tvær vikur þar sem ég eyddi mörgum klukkustundum á púttflötinni og spilaði mikið. Reyndi að halda fókusnum á að skora og fá keppnislikar æfingar og ekki gera neinar stórar breytingar á leik eða tækni, einbeitti mér bara að því að viðhalda grunnatriðunum.
Þú hefur leikið vel á tímabilinu og ert í 12. sæti stigalistans fyrir lokamótið. Efstu 7 kylfingarnir vinna sér inn þátttökurétt á LET, breytir það einhverju í þinni nálgun?
Myndi ekki segja að það breyti neinu, ef eitthvað er þá er ég afslappaðri núna en fyrir önnur mót. Ég er í þeirri stöðu að ég þarf að vinna og vona að aðrir eigi verri viku. Svo ég get bara einbeitt mér að mínum leik og séð hversu langt ég næ. Svo ég fer inn í mótið með þá afstöðu að það sé allt eða ekkert, ætla bara að njóta þess að spila og vona að það verði nóg til að ná alla leið.