Lokamót LET Access mótaraðarinnar fór fram á Gambito Golf Calatayud vellinum á Spáni dagana 16.-18. október. Í mótið mættu efstu kylfingar tímabilsins og var til mikils að vinna. Efstu sjö kylfingar stigalistans í lok tímabils vinna sér inn fullan þátttökurétt á LET (Evrópumótaröðinni).
Atvinnukylfingarnir Ragnhildur Kristinsdóttir (Ragga) og Andrea Bergsdóttir voru báðar á meðal keppenda mótsins. Eftir öfluga spilamennsku tímabilsins sat Ragga í sjötta sæti stigalistans fyrir lokamótið og Andrea í því tólfta.
Eftir frábæra byrjun á fyrsta hring náði Ragga ekki í gegnum niðurskurð og lék hringi sína á 71-77 höggum. Hún endar tímabilið því í 8. sæti, einungis tveimur stigum frá efstu 7.
Andrea lék mótið á 72-72-75 höggum og endaði jöfn í 41. sæti. Með árangrinum sótti hún nokkur stig á stigalistanum, en þó ekki nógu mörg til að komast úr 12. sætinu.
Þrátt fyrir að hafa ekki komist beint inn á LET mótaröðina er enn tækifæri fyrir Andreu og Röggu að öðlast þar þátttökurétt. Eftir frábæra spilamennsku tímabilsins hafa þær báðar tryggt sér sæti í lokaúrtökumóti LET mótaraðarinnar sem fram fer 16.-20. desember í Marokkó. Þar munu kylfingar úr öllum áttum mæta og spila upp á 20 laus sæti í sterkustu mótaröð Evrópu.
Lokastöðu stigalistans má sjá hér að neðan:
Sæti | Nafn | Þjóðerni | Stig | Mót spiluð |
1 | Gemma Clews | England | 2.158 | 17 |
2 | Fernanda Lira | Mexíkó | 1.887 | 11 |
3 | Katharina Muehlbauer | Austurríki | 1.787 | 18 |
4 | Andrea Lignell | Svíþjóð | 1.635 | 17 |
5 | Patrice Mackova | Tékkland | 1.578 | 11 |
6 | Charlotte Heath | England | 1.499 | 16 |
7 | Amalie Leth-Nissen | Danmörk | 1.487 | 17 |
8 | Ragga Kristinsdóttir | Ísland | 1.485 | 15 |
9 | Justice Bosio | Ástralía | 1.359 | 16 |
10 | Charlotte Liautier | Frakkland | 1.293 | 19 |
11 | Amaia Latorre | Spánn | 1.089 | 9 |
12 | Andrea Bergsdóttir | Ísland | 927 | 16 |