Auglýsing

Golf Iceland kynnti þá möguleika sem standa golfferðamönnum til boða á Íslandi á stærstu golf ferðasýningu heims sem fram fór í byrjun október. Magnús Oddsson, verkefnastjóri Golf Iceland, segir að áhugi á Íslandi sem golfáfangastað fari vaxandi en 1250 aðilar tóku þátt á International Golf Travel Mart  IGTM ferðasýningunni sem haldin var á Spáni.


IGTM ferðasýningin fer fram árlega. Að þessu sinni voru þar 650 aðilar, sem kynntu sína áfangastaði, heil lönd, ákveðin golfsvæði í heiminum eða einstaka golfvelli fyrir um 450 sérhæfðum söluaðilum golfferða og um 150 fjölmiðlamönnum sem sóttu sýninguna.

ArcticOpen2015audunnnielsson-08.jpg

Frá Jaðarsvelli á Akureyri. Mynd/Auðunn Níelsson/GA. 

Samhliða sýningunni fer fram mikil kynning á golfi og ferðaþjónustu svo og alls konar tölfræði  og niðurstöðum varðandi ferðahegðun kylfinga.

Golf Iceland var með kynningarbás á sýningunni þar sem samtökin kynntu almennt möguleika til að spila golf  hér á landi svo og sérstaklega þjónustu og vöru sinna meðlima. Þá voru kynntir tilbúnir „golfpakkar“ íslenskra söluaðila innan Golf Iceland fyrir erlenda golfhópa auk þeirra opnu móta meðlima Golf Iceland sem höfða hvað mest til erlendra kylfinga.

Magnús Oddsson verkefnastjóri Golf Iceland sótti sýninguna og sá um kynninguna:

„Þarna fáum við margs konar tækifæri til að koma golfi á Íslandi á framfæri. Í fyrsta lagi eru fyrirfram bókuð viðtöl við söluaðila,sem áhuga hafa á að kynna sér golf  á Íslandi . Í öðru lagi þá eru sérstakar opnar kynningar á áfangastöðum sem eru vel sóttar.

Og loks þá reynum við að koma okkur og okkar efni á framfæri við þá fjölmörgu fjölmiðlamenn sem sækja sýninguna. Í allri okkar kynningu er lögð áhersla á möguleikana til að spila í okkar einstöku náttúru enda séu vellirnir hluti af henni svo ekki sé minnst á mið næturgolfið, sem alltaf vekur mikla athygli. Samhliða  auknum almennum áhuga á Íslandi, sem áfangastað fyrir ferðmenn hefur áhugi á Íslandi sem golfáfangastað farið vaxandi enda eru söluaðilar golfferða stöðugt að leita að nýjum og „öðruvísi“  stöðum fyrir sína viðskiptavini“ segir Magnús.

Að þessu sinni óskuðu söluaðilar frá alls 15 löndum eftir viðtölum; mismunandi margir frá hverju landi, en mestur áhugi var frá Mið-Evrópu, Bretlandi og Bandaríkjunum auk Norðurlandanna.


unnamed (2).jpg

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ