/

Deildu:

Auglýsing

Daníel Ingi – „Væri ekki að spila golf í dag ef ég hefði ekki hitt Berg Konráðs“

Daníel Ingi Sigurjónsson er klúbbmeistari Golfklúbbs Vestmannaeyja 2018. Hinn tvítugi Eyjamaður átti gott tímabil í sumar eftir erfiða mánuði þar á undan. Daníel Ingi var í vafa um hvort hann gæti haldið áfram að leika golf eftir að í ljós kom að hann er með mjög mikla hryggskekkju. Með aðstoð góðra fagmanna hefur Daníel Ingi náð að koma til baka í íþróttina sem hann elskar. Golf á Íslandi lagði nokkrar laufléttar spurningar fyrir Daníel.

Hver er ástæðan fyrir því að þú ert í golfi?
„Pabbi er golfari og hann tók mig með sér þegar ég var yngri, eða um sex ára gamall. Hef verið í golfi síðan.“

Hvað er skemmtilegast við golfið?
„Að spila í skemmtilegum félagsskap og í góðu veðri, skila inn skorkorti undir pari og svo er alltaf góð tilfinning að smellhitta driverinn á miðja braut af fyrsta teig í móti.“

Framtíðardraumarnir í golfinu?
„Verða Íslandsmeistari og ná að bæta vallarmetið hans Haraldar Franklín í Vestmannaeyjum.

Hver er styrkleikinn þinn í golfi?
„Slátturinn hefur alltaf verið minn styrkleiki, en högg inn fyrir 100 metrana eru í miklu uppáhaldi, þar færðu fuglana.“

Hvað þarftu að laga í þínum leik?
„Pútterinn á það til að neita setja kúluna í holuna.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér í golfi?
„Þegar ég vann meistaramót GV með einu höggi og þegar ég spilaði á sjö höggum undir pari á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum. Einnig hef ég farið þrisvar sinnum holu í höggi.

Hvert er vandræðalegasta atvikið á golfvellinum hjá þér?
„Ég var í útlöndum að spila með pabba og yngri bróður mínum sem var tólf ára þegar þetta gerðist. Hann fékk að prófa golfbílinn á síðustu holunni á meðan við pabbi púttuðum á 18. flötinni. Þegar pabbi var að stilla sér upp í púttið komu rosa læti frá bílnum. Þá hafði litli bróðir minn ætlað undir grein sem stóð út frá tré. Hann misreiknaði hæðina á golfbílnum og reif þakið af honum. Pabbi keyrði bílinn upp í klúbbhús á meðan ég hélt á þakinu.“

Draumaráshópurinn?
„Ætli það sé ekki Tiger Woods, John Daly og Bubba Watson.“

Uppáhaldsgolfvöllurinn og hvers vegna?
„La Galiana á Spáni er einstakur.“

Hvaða þrjár golfholur eru í uppáhaldi hjá þér og hvers vegna?
„17. holan í Eyjum er alltaf ein sú skemmtilegasta. Það er alveg sama hversu oft þú spilar hana, þú veist aldrei hvaða kylfu á að nota. 15. holan á velli sem heitir La Galiana á Spáni. Teighöggið er slegið svo hátt uppi að það er eins og kúlan ætli aldrei að lenda, svo er útsýnið eitt það flottasta.
8. holan á Pravets Golf Club í Búlgaríu. Það er 150 metra par 3 hola en flötin er eyja úti í miðju vatni.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan golf?
„Ég fer á snjóbretti þegar ég get yfir veturinn. Ég hef mjög gaman af flest öllu adrenalínsporti.“

Í hvaða skóla ertu og hvaða nám ertu að stunda ?
„Ég kláraði framhaldsskólann í desember á síðasta ári, en er núna að undirbúa háskólanám erlendis með aðstoð frá Ólafi Birni Loftssyni.

Þú hefur glímt við meiðsli undanfarin misseri – segðu okkur frá því hvernig allt breyttist hjá þér til hins betra, hvað hefur þú verið að gera til að laga ástandið?

„Ég meiddist í maí árið 2017. Á þeim tíma voru tvær vikur í fyrsta mót. Ég var að æfa slátt upp á æfingasvæði. Í miðri sveiflu fékk ég rosalegan verk í hægri síðuna við rifbeinin. Mér leið eins og ég væri rifbeinsbrotinn. Ég fór til læknis en því miður náði hann ekki að greina meiðslin rétt. Ég missti því úr hálft tímabil, ég gat ekki slegið golfbolta í þrjá mánuði og ég þurfti að hætta að vinna líka,“ segir Daníel. Hann hafði síðan heppnina með sér þegar hann hitti á Berg Konráðsson kírópraktor.

„Eftir fyrstu heimsóknina til Bergs þá kom í ljós að ég er með 17 gráðu hryggskekkju. Ég fór í stífa endurhæfingu sem tók margar vikur. Ég fékk grænt ljós á að spila keppnisgolf að nýju um miðjan ágúst 2017. Ég náði þremur síðustu mótunum. Næstu átta mánuði vann ég markvisst með Bergi að undirbúa tímabilið 2018. Það tókst mjög vel og ég var nánast alveg verkjalaus í sumar. Ég hitti Berg á tveggja vikna fresti og ég á honum mikið að þakka. Ef ég hefði ekki hitt á hann og fengið þessa greiningu hjá honum þá væri ég ekki að spila golf í dag,“ sagði Daníel Ingi.

Staðreyndir:

Nafn: Daníel Ingi Sigurjónsson.
Aldur: 20 ára.
Forgjöf: 1,9.
Klúbbur: GV
Uppáhaldsmatur: Ribeye.
Uppáhaldsdrykkur: Coke.
Uppáhaldskylfa: 46 gráðu fleygjárnið.
Ég hlusta á: Flest alla tónlist.
Besta skor í golfi: 63 högg (-7) á Íslandsmótinu í Eyjum 2018.
Besta vefsíðan: Facebook
Besta blaðið: Golf á íslandi
Stundar þú aðrar íþróttir / hvaða íþrótt? Lyftingar


Dræver: Titleist 917 d2
Brautartré: Titleist 915
Blendingur: Titleist 915
Járn: Titleist Ap2 716
Fleygjárn: Titleist sm7 black
Pútter: Taylormade Spider
Hanski: FJ
Skór: FJ
Golfpoki: Titleist staff bag
Kerra: ClicGear

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ