Auglýsing

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GR, er á keppendalistanum fyrir næsta mót á Áskorendamótaröðinni. Mótið fer fram á Novo Sancti Petri í Cadiz héraði á Spáni og er það jafnframt þriðja síðasta mótið á keppnistímabilinu á ChallengeTour. Næstu tvö mót fara fram á þessum velli, það fyrra fer fram dagana 5.- 8. nóvember og það síðara 11.-14. nóvember.  

Haraldur Franklín Magnús, GR, er níundi á biðlista fyrir mótið í Novo Sancti Petri, en hann er staddur á Spáni og bíður eftir því að breytingar verði á keppendalistanum

Guðmundur Ágúst segir í samtali við golf.is að hann sé þakklátur fyrir að fá tækifæri til að keppa á næsta móti eftir að hafa verið á biðlistanum líkt og Haraldur Franklín. 

„Ég var á biðlista en í byrjun vikunnar fékk ég þau skilaboð að ég fengi boð um að taka þátt á fyrra mótinu. Það var ljúf tilfinning að fá þessar fréttir, og ég bara þakklátur að fá tækifæri til þess að keppa,“ segir Guðmundur Ágúst við golf.is. 

Guðmundur Ágúst hefur á undanförnum dögum verið við æfingar á Costa Ballena sem er vel þekkt „Íslendingasvæði“ líkt og Novo Sancti Petri. 

„Ég fór heim til Íslands eftir mótið sem fram fór á Ítalíu í byrjun október. Ég fór aftur til Spánar fyrir rúmri viku. Ég hef nýtt tímann vel við æfingar hér á Ballena. Hér eru fáir gestir og ég er nánast með æfingasvæðið út af fyrir mig. Ég get notaði mína æfingabolta, ProV1, og slegið að vild út um allt án þess að vera fyrir neinum. Þetta er smá „Palli var einn í heiminum“ tilfinning í þessu,“ segir Guðmundur Ágúst sem er í 37. sæti stigalistans á Áskorendamótaröðinni.  

Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp stigalistann á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili. Hann var í sæti nr. 135 þegar keppnistímabilið hófst. Besti árangur hans er 5. sætið á móti sem fram fór í Norður-Írlandi í byrjun september á þessu ári. 

Aðeins 45 stigahæstu kylfingarnir komast inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni sem fram fer á Mallorca 19.-22. nóvember og er Guðmundur Ágúst Kristjánsson í góðri stöðu varðandi lokamótið. Á lokamótinu á Mallorca keppa 45 efstu keppendurnir á stigalistanum um 20 efstu sætin sem tryggja keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. 

„Markmiðið hjá mér fyrir þetta tímabil var að komast inn á lokamótið á Mallorca. Það eru ágætar líkur á því að mér takist það. Ég þarf að nýta tækifærið í næsta móti og reyna að bæta stöðu mína enn frekar.“ 

Guðmundur Ágúst er í hópi fimm íslenskra kylfinga sem eru í skilgreindum Ólympíuhópi ÍSÍ sem nýverið var birtur. 

„Ég veit hvernig staðan er hjá mér og ég hef fylgst vel með því undanfarið ár. Það gæti dugað að vera í kringum sæti nr. 270 á heimslistanum í júlí á næsta ári til þess að komast inn á ÓL í Tókýó. Ég er í sæti nr. 540 en með góðum árangri og einum sigri á Áskorendamótaröðinni þá gæti staðan breyst hratt.

Ég veit af möguleikunum varðandi ÓL 2021. Ég þarf líklega að vera í kringum sæti 250-270 á heimslistanum til þess að komast inn, í dag er í sæti nr. 540. 

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, er eini íslenski atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem hefur komist inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur var í 35. sæti fyrir lokamótið en endaði í 37. sæti á lokastigalistanum. Það er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á Áskorendamótaröðinni. 

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur komist inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu með fullan keppnisrétt. 

Aðeins fimm íslenskir karlkylfingar hafa verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 þegar Birgir Leifur braut ísinn.

Birgir Leifur á 16 keppnistímabil að baki á Áskorendamótaröðinni og alls 155 mót. Besti árangur hans er 1. sæti árið 2017 á móti í Frakklandi og er það eini sigur hans á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. 

Árið 2002 lék Björgvin Sigurbergsson, GK,  á 11 mótum á Áskorendamótaröðinni og endaði í 179. sæti á stigalistanum. 

Axel Bóasson, GK, lék á 16 mótum árið 2018 og endaði í sæti nr. 224 á stigalistanum. 

Guðmundur Ágúst, GR,  er á sínu öðru tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann lék á 6 mótum í fyrra og endaði í sæti nr. 109 á stigalistanum. 

Haraldur Franklín, GR, er á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Mótin sem eru framundan á Áskorendamótaröðinni eru: 

5.-8. nóvember:

Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

11.-14. nóvember:

Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

19.-22. nóvember:

T-Golf & Country Club, Mallorca, Baleares.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ