Íslenski atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús náði ekki í gegnum niðurskurð á SDC Open mótinu í Suður-Afríku. Mótið var fyrsta mót tímabilsins á HotelPlanner Tour mótaröðinni, sem er sú næst sterkasta í Evrópu.
Haraldur lék fyrsta hringinn vel og kom í hús á einu höggi undir pari. Hann fékk þar tvo fugla, einn skolla og var í fínum málum. Annar hringurinn reyndist erfiðari. Þar fékk Haraldur fjóra skolla, þrjá fugla og kom í hús á einu höggi yfir pari.
Fyrstu tvo hringina lék Haraldur því á pari vallarins og varð þremur höggum frá því að ná í gegnum niðurskurð.

SDC Open mótið er haldið á Zebula Golf Estate & Spa golfvellinum á Limpopo. Völlurinn er gífurlega fallegur en Haraldur sagði hann erfiðan í viðtali fyrir mótið. Mikill hiti er á svæðinu ásamt því að völlurinn sé um 1.500m yfir sjávarmáli.

Nick Carlson, kylfingur GM, er einnig á meðal keppenda mótsins, en hann náði í gegnum niðurskurð eftir frábæran endasprett á öðrum hringnum. Að fjórtán holum liðnum var Nick jafn Haraldi á pari vallarins, en þrír fuglar í röð reyndust honum dýrmætir. Eftir þriðja hring upp á 72 högg situr Nick jafn í 58. sæti mótsins.

