Íslenski atvinnukylfingurinn Ragga Kristinsdóttir endaði önnur eftir bráðabana á Hauts de France Pas de Calais Golf Open mótinu á LET Access í dag. Mótið var það þriðja síðasta á mótaröðinni í sumar. Með árangrinum fer hún upp í 5. sæti stigalistans og hefur svo gott sem tryggt sér sæti í sterkustu mótaröð Evrópu á næsta tímabili.
Leikið var á Golf Saint Omer vellinum í norðurhluta Frakklands. Völlurinn er par 72 og 5.287 metra langur. Mikil rigning einkenndi mótið og var leik frestað á öllum keppnisdögum. Að lokum var hætt við síðasta hring mótsins, en aðstæður voru langt frá því að vera góðar. Þar sem Ragga og Fernanda Lira voru jafnar í efsta sæti fyrir lokahringinn var ákveðið að leikinn yrði bráðabani um sigur í mótinu.
Eftir að hafa leikið níundu holuna þrisvar sinnum hafði Lira loks betur og Ragga endaði því önnur.
Spilamennska Röggu
Ragga var jöfn í 10. sæti eftir fyrsta hringinn, sem hún lék á einu höggi undir pari. Engin lék betur en Ragga á öðrum hringnum, en hún kom í hús á 67 höggum, fimm undir pari vallarins. Í viðtali við LET Access skrifaði hún gott gengi sitt á að pútterinn væri kominn aftur í gang eftir tímabundna lægð.


Fyrir mótið var Ragga í 6. sæti stigalistans. Hún vann m.a. Vasteras Open mótið í Svíþjóð fyrr í sumar og varð önnur í Swedish Strokeplay Championship mótinu. Annað sætið í Frakklandi kom Röggu, líkt og áður kom fram, upp í 5. sæti stigalistans, en efstu 7 kylfingarnir í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni á næsta ári.
Spilamennska Andreu
Andrea Bergsdóttir var einnig á meðal keppenda í Frakklandi. Hún var jöfn í 6. sæti eftir fyrsta hring mótsins, sem hún lék á 69 höggum, þremur undir pari. Annan hringinn lék Andrea á 76 höggum, fjórum yfir pari, og endaði því jöfn í 19. sæti þar sem ekkert varð úr þriðja hringnum.


Andrea situr í 13. sæti stigalistans, en hún endaði m.a. í 3.- og 4. sæti í mótum fyrr í sumar. Gott gengi í síðustu tveimur mótunum gæti komið henni upp í efstu sjö sætin, en spennandi verður að fylgjast með lokasprettinum á næstu vikum.