Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Ragga Kristinsdóttir eru allar á meðal keppenda á Rose Ladies Open mótinu á LET Access mótaröðinni. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu.
Eftir fyrstu tvo keppnisdaga mótsins eru þær allar á meðal tuttugu efstu, og í góðri stöðu fyrir lokahringinn.
Leikið er á Hanbury Manor Marriot Hotel & Country Club svæðinu sem er staðsett rétt norðan við London.
Andrea Bergsdóttir er jöfn í fimmta sæti á fjórum höggum undir pari. Hún hefur leikið báða hringina á 70 höggum og er fjórum höggum á eftir hinni frönsku Emma Falcher.


Ragga Kristinsdóttir er höggi á eftir Andreu og jöfn í níunda sætinu. Hún lék fyrsta hringinn á 71 höggi og þann annan á 70.


Ríkjandi Íslandsmeistarinn Guðrún Brá er jöfn í tuttugasta sætinu á einu höggi undir pari. Guðrún hefur, líkt og Andrea, sótt sjö fugla.


Þetta er fyrsta mót Guðrúnar á mótaröðinni í sumar, en hún hefur leikið í átta mótum á LET mótaröðinni hingað til.
Andrea og Ragga eru báðar í baráttu um sæti á LET mótaröðinni eftir gott gengi sumarsins.
Andrea situr í 16. sæti stigalistans, en hún endaði m.a. í 3.- og 4. sæti í mótum fyrr í sumar. Hún hefur verið í baráttunni í mörgum mótum og stefnir á stökk upp stigalistann í síðustu mótunum.
Ragga er í 6. sæti listans, en hún vann Vasteras Open mótið í Svíþjóð fyrr í sumar, og varð með því fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Hún varð einnig önnur í Swedish Strokeplay Championship mótinu og er í góðum málum fyrir síðustu mót tímabilsins.
Efstu sjö kylfingarnir á listanum í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni, svo til mikils er að vinna.