Íslenskir atvinnu- og afrekskylfingar hafa leikið gott golf á alþjóðlegum vettvangi í sumar.
Kylfingarnir okkar leika á mótaröðum um alla Evrópu og er gaman að fylgjast með gengi þeirra og ferðalögum. Í mótavaktinni eru mót vikunnar tekin saman, farið yfir úrslit og spáð fyrir gengi helgarinnar.
HotelPlanner Tour
Haraldur Franklín Magnús leikur í GAC Rosa Challenge Tour mótinu í Póllandi sem fer fram dagana 4.-7. september. Mótið er hluti af HotelPlanner Tour atvinnumótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.
Haraldur vann sér inn þátttökurétt í mótinu eftir frábæra frammistöðu í Svíþjóð í síðustu viku, þegar hann endaði annar í Dormy Open mótinu. Hann lék besta hring mótsins á lokadeginum, ellefu undir pari, og mátti minnstu muna að hann léki undir 60 höggum.
Með árangrinum tók Haraldur stórt stökk á stigalista mótaraðarinnar og fór úr 156. sætinu upp í það 55.
Í móti vikunnar situr Haraldur í 116. sætinu eftir fyrsta hring, á þremur yfir pari. Á hringnum fékk hann einn fugl, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla.

Hér má fylgjast með stöðu mótsins
LET Access
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Ragga Kristinsdóttir eru allar á meðal keppenda á Rose Ladies Open mótinu á LET Access mótaröðinni. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu. Bæði Andrea og Ragga hafa leikið í mörgum mótum á tímabilinu og hefur gengið verið frábært.
Leikið er á Hanbury Manor Marriot Hotel & Country Club svæðinu.
Þetta er fyrsta mót Guðrúnar á mótaröðinni í sumar, en hún hefur leikið í átta mótum á LET mótaröðinni hingað til.
Andrea og Ragga eru báðar í baráttu um sæti á LET mótaröðinni eftir gott gengi sumarsins.
Andrea situr í 16. sæti stigalistans, en hún endaði m.a. í 3.- og 4. sæti í mótum fyrr í sumar. Hún hefur verið í baráttunni í mörgum mótum og stefnir á stökk upp stigalistann í síðustu mótunum.
Ragga er í 6. sæti listans, en hún vann Vasteras Open mótið í Svíþjóð fyrr í sumar, og varð með því fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Hún varð einnig önnur í Swedish Strokeplay Championship mótinu og er í góðum málum fyrir síðustu mót tímabilsins.
Efstu sjö kylfingarnir á listanum í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni, svo til mikils er að vinna.
Allar fara þær út eftir hádegi í dag, og verður spennandi að fylgjast með gengi þeirra um helgina.