Golfklúbburinn Keilir er Íslandsmeistari golfklúbba 2025 í 1. deild kvenna. Þetta er í fjórtánda skiptið sem GK sigrar í efstu deild kvenna. Með sigrinum enduðu þær þriggja ára sigurgöngu GM í mótinu. Úrslitin réðust á Jaðarsvelli á Akureyri í dag, en andstæðingurinn í úrslitum mótsins var Golfklúbbur Reykjavíkur.
Smelltu hér til að sjá úrslit allra leikja mótsins
Alls tóku átta lið þátt í 1. deild kvenna í keppninni um Íslandsmeistaratitil golfklúbba 2025.
Liðunum var skipt í tvo fjögurra liða riðla, þar sem tvö efstu liðin úr hvorum riðli komust í undanúrslit.
Tvö efstu liðin úr hvorum riðli komust í undanúrslit.
A-riðill:
Sveitir GA og GM fóru upp úr A-riðli mótsins. Heimaliðið frá Akureyri lék vel í riðlinum, og hóf mótið með sigri á sveit Mosfellsbæjar, sem kom inn í mótið sem ríkjandi meistari síðustu þriggja ára. GA vann alla sína leiki, en GM vann báða leiki sína eftir tapið gegn GA.
GKG endaði í þriðja sæti riðilsins og GOS í því fjórða.

B-riðill:
Hart var barist um efsta sætið í B-riðli. Eftir sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum mættust sveitir GR og GK í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins. Leikurinn var í járnum allan tímann. Elsa Maren Steinarsdóttir setti flott pútt í á 18. holunni, og tryggði GR með því jafntefli í leiknum. Það reyndist nóg, þar sem sveit GR fékk hálfan vinning meira en GK í hinum tveimur leikjum riðilsins.
Golfklúbbur Skagafjarðar endaði í þriðja sæti riðilsins, og Golfklúbburinn Oddur í því fjórða.

Undanúrslit:
Golfklúbburinn Keilir mætti Golfklúbbi Akureyrar í fyrri undanúrslitaleik mótsins. Tvímenningurinn gat ekki skilið liðin að, svo öll augu voru á fjórmenningnum. Þar var staðan jöfn eftir átján holur, og halda þurfti í bráðabana um laust sæti í úrslitum. Hafdís Jóhannsdóttir og Þórdís Geirsdóttir fengu par á fyrstu holu bráðabanans, sem reyndist nóg, og GK því á leið í úrslit mótsins.

Golfklúbbur Reykjavíkur sigraði Golfklúbb Mosfellsbæjar 4-1 í seinni undanúrslitaleiknum. Fjórir af fimm leikjum viðureignarinnar enduðu á átjándu holunni, en flestir þó GR í vil.

Úrslit:
Úrslitaleikurinn var í járnum frá upphafi. Þegar tólf holur voru liðnar voru tveir leikir jafnir, GK upp í tveimur og GR upp í einum.
Staðan breyttist lítillega á síðustu holunum. Keilir sigraði tvo leiki og GR einn, en tveir leikir enduðu í bráðabana. Guðrún Birna(GK) og Valdís Þóra(GR) voru jafnar eftir átján holur, sem og Elsa Maren(GR) og Guðrún Brá(GK).

Elsa fékk fugl á 19. holunni og sigraði leikinn, og öll augu því á leik Valdísar Þóru og Guðrúnar Birnu. Eftir pör á 19. og 20. holunum var það loks á 21. holunni sem hægt var að skilja þær að. Teighögg Valdísar endaði í vítasvæðinu og par Guðrúnar tryggði Íslandsmeistaratitilinn.

Úrslit:
- Golfklúbburinn Keilir
- Golfklúbbur Reykjavíkur
- Golfklúbbur Mosfellsbæjar
- Golfklúbbur Akureyrar
- Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar
- Golfklúbbur Selfoss
- Golfklúbbur Skagafjarðar
- Golfklúbburinn Oddur



Fyrst var leikið á Íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki árið 1982. Mótið í ár er það 42. í röðinni. Frá árinu 1982 hafa 4 klúbbar fagnað þessum titli.
Golfklúbbur Reykjavíkur hefur oftast sigrað eða 22 sinnum, þar á eftir kemur Golfklúbburinn Keilir með 14 titla, Golfklúbbur Mosfellsbæjar er með 5 titla þar af eru þrír titlar þegar Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ var til. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur tvívegis fagnað sigri í efstu deild kvenna á Íslandsmóti golfklúbba.
Íslandsmót golfklúbba GSÍ – Íslandsmeistarar frá upphafi:
| 1982 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1983 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1984 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1985 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1986 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1987 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1988 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1989 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1990 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1991 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1992 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1993 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 1994 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1995 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1996 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1997 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 1998 | Golfklúbburinn Kjölur | 
| 1999 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2000 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2001 | Golfklúbburinn Kjölur | 
| 2002 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2003 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2004 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2005 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2006 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2007 | Golfklúbburinn Kjölur | 
| 2008 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2009 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2010 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2011 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2012 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2013 | Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar | 
| 2014 | Golfklúbburinn Keilir | 
| 2015 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2016 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2017 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2018 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2019 | Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar | 
| 2020 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2021 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 
| 2022 | Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 
| 2023 | Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 
| 2024 | Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 
| 2025 | Golfklúbburinn Keilir | 
 
								 
								 
				 
				 
				 
				 
				 
				 
                                 
                                 
                                 
                                 
                                 
                                


