Atvinnukylfingarnir Ragnhildur Kristinsdóttir og Andrea Bergsdóttir keppa á Islantilla Open á LET Access mótaröðinni sem hefst í dag.
Að þessu sinni er keppt á Islantilla vellinum á Spáni. Svæðið þekkja flestir Íslendingar, en staðurinn er einn vinsælasti golfáfangastaður Íslendinga.
Mótið hefst í dag, fimmtudaginn 17. júlí, og er það hluti af LET Access atvinnumótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.
Leiknir verða þrír 18 holu hringir á þremur keppnisdögum. Niðurskurður er eftir 2. keppnisdag.
Þetta er níunda mót þeirra beggja á tímabilinu, en þær hafa leikið frábærlega hingað til. Eftir sigur Ragnhildar á Vasteras Open í síðustu viku er hún komin í fjórða sæti stigalistans. Andrea er í því tólfta, og þær því báðar í góðum málum fyrir seinnihluta tímabilsins. Efstu sjö kylfingarnir í lok tímabils fá þátttökurétt í LET mótaröðinni.