Íslandsmótið í golfi 2025 fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis 7.-10. ágúst. Opið er fyrir skráningu en skráningarfrestur er til kl. 23:59 mánudaginn 21. júlí.
Smelltu hér til að skrá þig:
Keppnisskilmálar Íslandsmótsins í golfi 2025
Keppt skal samkvæmt gildandi reglugerð um Íslandsmót í golfi karla og kvenna og móta- og keppendareglum GSI
Þátttökuréttur og niðurskurður
Höggleikur í flokki karla og kvenna án forgjafar, leiknar verða 72 holur á fjórum dögum. Þátttökurétt hafa (a) íslenskir ríkisborgarar og (b) erlendir kylfingar eftir a.m.k. þriggja ára samfellda búsetu hérlendis. Hámarksfjöldi þátttakenda skal vera 138. Í karlaflokki er hámarksforgjöf 3.0 og í kvennaflokki 5,5. Þátttakendur skulu vera félagar í golfklúbbi innan vébanda GSÍ.
Þátttökurétt í hvorum flokki hafa, í þessari röð:
1. Fyrrum Íslandsmeistarar í golfi.
2. Leikmenn með stig á heimslista atvinnukylfinga (www.owgr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
3. Leikmenn í sætum 1 – 2000 á heimslista áhugakylfinga (www.wagr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.
4. Leikmenn í sætum 1 – 32 á stigalista GSÍ á yfirstandandi ári. Ef tveir eða fleiri leikmenn eru jafnir í 32. sæti skulu þeir báðir/allir fá þátttökurétt.
5. Leikmenn sem ekki hafa unnið rétt til þátttöku samkvæmt liðum 1 til 4 að ofan, sem annars vegar skipa efsta sæti á stigalista Unglingamótaraðarinnar í flokkum 15-16 ára og hins vegar flokkum 17-18 ára.
6. Aðrir leikmenn sem uppfylla forgjafarmörk og fjærst eru forgjafarmörkum í sínum flokki kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur. Standi val á milli keppenda með forgjöf jafnlangt frá forgjafarmörkum skal hlutkesti ráða.
Þó skulu að lágmarki 36 kylfingar fá þátttökurétt í hvorum flokki. Keppendum skal þó fjölgað þannig að fullir ráshópar verði í hvorum flokki.
Eftir 36 holu leik skal leikmönnum fækkað þannig að þau 60% leikmanna sem eru með besta skor í hvorum flokki halda áfram keppni. Ef leikmenn eru á sama skori og sá sem er með lakastan árangur þeirra sem halda áfram skulu þeir báðir/allir halda áfram. Einnig skulu leikmenn ætíð fá að halda áfram keppni séu þeir 10 höggum eða minna á eftir þeim leikmanni sem er í 1. sæti.
Skráning
Skráning í mótið fer fram í GolfBox og er skylda að greiða mótsgjald við skráningu. Allir kylfingar geta skráð sig en tryggð þátttaka skýrist þó ekki fyrr en eftir að skráningafresti lýkur og endanlegur keppendalisti hefur verið gefinn út. Þeir kylfingar sem skrá sig í mótið en fá ekki þátttökurétt munu fá mótsgjald endurgreitt.
Skráningarfrestur er til kl. 23:59 mánudaginn 21. júlí.
Meiri upplýsingar og keppnisskilmála í heild sinni má sjá í hlekk hér að ofan.