/

Deildu:

Auglýsing

Keppni á Eimskipsmótaröðinni hefst að nýju í vikulok en fyrsti keppnisdagur á Egils Gull mótinu á Strandarvelli á Hellu er á föstudaginn. Alls verða leiknar 54 holur á þremur keppnisdögum og eru 84 keppendur í karlaflokki og 23 í kvennaflokki.  Ragnar Már Garðarsson úr GKG og Sunna Víðisdóttir úr GR sigruðu á fyrsta mótinu á Eimskipsmótaröðinni sem lauk s.l. sunnudag á Hólmsvelli í Leiru og þau eru bæði með á Strandarvelli.

Í kvennaflokki eru tveir Íslandsmeistarar skráðir til leiks – Sunna sem varð Íslandsmeistari í höggleik í fyrra og Þórdís Geirsdóttir úr GK sem varð Íslandsmeistari í höggleik árið 1987.

Í karlaflokki eru alls fjórir fyrrum Íslandsmeistarar í höggleik skráðir til leiks; Björgvin Þorsteinsson úr GA sem er með 6 slíka titla (1971, 1973, 1974, 1975, 1976, 1977), Haraldur Franklín Magnús GR (2012), Heiðar Davíð Bragason GHD (2005) og Kristján Þór Einarsson GKj (2008).

Haraldur Franklín kann vel við sig á Strandarvelli því hann sigraði á Egils-Gull mótinu sem fram fór á Eimskipsmótaröðinni árið 2010 á þessum velli – og hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í höggleik á Strandarvelli árið 2012. Félagi hans úr GR, Arnór Ingi Finnbjörnsson, á einnig góðar minningar frá Hellu en hann varð Íslandsmeistari í holukeppni árið 2011 á þessum velli. Arnór verður með á mótinum um helgina.

Þórður Rafn Gissurarson
úr GR verður á meðal keppenda en hann hefur leikið á þýsku EPD atvinnumótaröðinni í vetur. Þórður er þessa stundina að leika á EPD móti í Austurríki en hann ætlar sér að vera mættur á Suðurlandið á föstudaginn.

Margir af yngri afrekskylfingum Íslands verða á meðal keppenda á Egils-Gull mótinu en flestir þeirra voru uppteknir á Íslandsbankamótaröðinni á Garðavelli um síðustu helgi þegar Nettómótið fór fram á Hólmsvelli í Leiru.

Kristófer Orri Þórðarson úr GKG, sem sigraði í flokki 17-18 ára á Akranesi, verður með á Hellu eins og félagi hans í GKG, Aron Snær Júlíusson sem varð annar á því móti.Henning Darri Þórðarson úr GK sem sigraði í flokki 15-16 ára á Akranesi verður með á Hellu líkt og Fannar Ingi Steingrímsson úr GHG sem varð þriðji á Akranesi. Fannar Ingi lék einn besta keppnishring Íslandssögunnar í fyrra á Íslandsbankamótaröð unglinga á Strandarvelli í fyrra, en þar lék hann á 61 höggi eða 9 höggum undir pari af gulum teigum og hann fór einnig holu í höggi á því móti.
Það má einnig benda á að þrír feðgar eru skráðir til leiks í karlaflokki. Þeir eru Kristófer Orri úr GKG, og faðir hans Þórður Már Jóhannesson úr GR, Ingi Rúnar Gíslason golfkennari hjá Golfklúbbi Suðurnesja og sonur hans Aron Skúli Ingason úr Kili Mosfellsbæ, og þriðja feðgaparið eru þeir Birgir Björn Magnússon úr GK og faðir hans Magnús Birgisson sem er golfkennari hjá Golfklúbbnum Oddi.

Systkinin Rúnar og Signý Arnórsbörn úr GK eru með á Hellu en þau hafa titla að verja í heildarstigakeppni Eimskipsmótaraðarinnar.Signý hefur sigrað alls fjórum sinnum í heildarstigakeppninni (2009, 2011, 2012,2013). Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR hefur sigrað oftast eða alls 9 sinnum og Ólöf María Jónsdóttir úr Keili er með 6 titla í heildarstigakeppninni.

Sigurjón Arnarson úr GR var sá fyrsti sem fagnaði sigri á stigamótaröð GSÍ þegar hún var sett á laggirnar árið 1989. Sigurjón, var á meðal keppenda um síðustu helgi á Nettómótinu og hann mætir til leiks á Egils-Gull mótið. Það eru fleiri fyrrum stigameistarar sem verða með um helgina á Strandarvelli.

Heiðar Davíð Bragson úr GHD varð stigameistari 2003 og 2005, og Hlynur Geir Hjartarson úr GOS á Selfossi er á meðal keppenda en hann hefur þrívegis verið stigameistari (2008, 2010 og 2012).

Aðeins Björgvin Sigurbergsson, GK, hefur sigrað oftar í heildastigakeppninni eða alls fjórum sinnum.Guðrún Brá Björgvinsdóttir, dóttir Björgvins, er á meðal keppenda á Hellu en hún varð önnur á mótinu á Hólmsvelli um síðustu helgi.  Stefán Már Stefánssonúr GR, stigameistari frá árinu 2011, verður einnig á meðal keppenda á Hellu.

Keppni hefst kl. 7.30 á föstudaginn og fer síðasti ráshópur út kl. 13.30 og ætti keppni að vera lokið um kl. 17.30. Hægt verður að fylgjast með skori keppenda á golf.is og eru skorin uppfærð á þriggja holu fresti með IPAD spjaldtölvum.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ