Perla Sól Dagbjartsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

– Perla Sól Sigurbrandsdóttir, yngsti keppandinn á Íslandsmótinu í golfi 2018, ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is 

„Dagbjartur bróðir minn dró mig með sér í golfið og þannig byrjaði ég í þessari frábæru íþrótt,“ segir hin 11 ára gamla Perla Sól Sigurbrandsdóttir sem fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í flokki 14 ára og yngri nýverið á Íslandsbankamótaröðinni. Perla Sól og bróðir hennar, Dagbjartur, eru bæði Íslandsmeistarar í sínum aldursflokkum.

Perla Sól tekur þátt á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni – en hún er yngsti keppandinn í kvennaflokki. Í kvennaflokki eru 31 skráðar til leiks. Meðalaldurinn er 21,7 ár.

Yngstu keppendurnir í kvennaflokki eru báðar fæddar árið 2006.
Lóa Dista Jóhannsson úr Golfklúbbi Borgarness fagnaði 12 ára afmæli sínu 16. júlí s.l.
Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Íslandsmeistari unglinga 14 ára og yngri er fædd 28. september og er því 11 ára gömul.

Elsti keppandinn í kvennaflokki er  Þórdís Geirsdóttir úr Keili. Þórdís er fædd árið 1965 og er hún 53 ára. Þórdís fagnaði um s.l. helgi Íslandsmeistaratitlinum í flokki 50 ára og eldri. Hún er einnig klúbbmeistari Keilis 2018 og hún varð Íslandsmeistari í golfi árið 1987.

Perla Sól svaraði nokkrum spurningum sem Golf á Íslandi lagði fyrir hana.

Perla Sól og Dagbjartur.

Þú ert aðeins 11 ára og sigraðir á Íslandsmóti unglinga 14 ára og yngri, hvernig leið þér með þann árangur og hverju þakkar þú árangurinn?

„Mér leið vel að vinna Íslandsmótið. Þeir sem eiga þakkir skildar fyrir að aðstoða mig eru foreldrar mínir, Dagbjartur bróðir minn og þjálfararnir mínir Snorri, David og Ingi Rúnar í Golfklúbbi Reykjavíkur.“

Hvað er skemmtilegast við golfið?

„Útivera, félagsskapur og að keppa.“

Framtíðardraumarnir í golfinu?

„Komast í háskóla í Bandaríkjunum, verða atvinnukylfingur og komast á LPGA-mótaröðina.“

Hver er styrkleikinn þinn í golfi?

„Stutta spilið.“

Hvað þarftu að laga í þínum leik?

„Högg úr brautarglompu.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér í golfi?

„Að vera Íslandsmeistari í flokki 14 ára og yngri stúlkna.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið á golfvellinum hjá þér?

„Þegar ég var á golfbíl og var að keyra upp bratta brekku. Þegar ég var komin upp brekkuna beygði ég of mikið og fór niður brekkuna nema ekki á veginum. Golfbíllinn fór útaf og ég missti stjórn á honum og stökk út. Bíllinn festist og það þurfti að koma trukkur að ná í hann.“

Draumaráshópurinn?

„Jordan Spieth, Justin Thomas og Tiger Woods.“

Uppáhaldsgolfvöllurinn og hvers vegna?

„Bay Hill því hann er skemmtilegur og eftirminnilegur. Korpan er falleg og er minn heimavöllur og hefur alltaf verið uppáhalds.“

Hvaða þrjár golfholur eru í uppáhaldi hjá þér og hvers vegna?

„18. hola á Bay Hill, hún er krefjandi og skemmtileg. 18. holan á Eagle Creek er falleg og krefjandi og 6. holan á Korpunni, þar er létt að komast nálægt pinna.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan golf?

„Fimleikar, skíði og flestallar íþróttir.“

Í hvaða skóla og bekk ertu?

„Korpuskóla – 6.bekk.“

Staðreyndir:

Nafn: Perla Sól Sigurbrandsdóttir.

Aldur: 11 ára.

Forgjöf: 6,4.

Klúbbur: Golfklúbbur Reykjavíkur.

Uppáhaldsmatur: Kjötbollurnar hennar ömmu.

Uppáhaldsdrykkur: Vatn.

Uppáhaldskylfa: 56 gráður.

Ég hlusta á: Popptónlist.

Besta skor í golfi: 73 á Korpunni.

Besta vefsíðan: Golf.is.

Besta blaðið: Golf á Íslandi.

Stundar þú aðrar íþróttir / hvaða íþrótt? Hópfimleika.

Dræver: US kids TS3.

Brautartré: US kids TS3.

Blendingur: US kids TS3.

Járn: US kids TS3.

Fleygjárn: US kids TS3.

Pútter: Scotty Cameron.

Hanski: FootJoy.

Skór: FootJoy.

Golfpoki: Titleist.

Kerra: Clicgear.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ