Á fundi Evrópska golfsambandsins (EGA) í gær var samþykkt einróma að taka í notkun hið nýja heimsforgjafarkerfi (WHS) frá og með næstu áramótum. Með WHS verða öll sex forgjafarkerfi heims sameinuð í eitt kerfi, svo allir kylfinga heims getið leikið eftir sömu forgjafarreglum.
Íslenskir kylfingar hafa til þessa leikið samkvæmt EGA-forgjafarkerfinu en nú verður breyting á.
„Hið nýja forgjafarkerfi mun verða tekið í notkun á Íslandi fyrir næsta tímabil. Við munum gera allt til að vera tilbúin um vorið 2020,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, en hann stýrði samningaviðræðunum milli EGA, R&A og Bandaríska golfsambandsins (USGA) síðastliðið ár.
„Margir aðilar hafa lagt á sig mikla vinnu undanfarin ár við að koma nýju kerfi í gagnið. Við erum afar sátt við þann mikla samhljóm sem var á meðal golfsambandanna í Evrópu og nú þegar samningar á milli allra þessara aðila hafa tekist þá er ekki eftir neinu að bíða, nú þarf að hefja vinnu við innleiðingu og kynningu á kerfinu“, segir Haukur Örn.
„Íslenskir golfklúbbar munu ekki finna fyrir miklum breytingum. Við höfum notast við bandaríska vallarmatskerfið og WHS byggir áfram á því. Við þurfum því ekki að endurmeta golfvellina okkar eins og t.d. Bretar þurfa að gera. Við ættum því að vera tilbúin í upphafi næsta árs.“
Haukur Örn segir að íslenskir kylfingar muni þurfa að venjast hinu nýja kerfi en það ætti ekki að taka langan tíma.
„Við munum hefja kynningu á kerfinu á næstu mánuðum svo allir verði meðvitaðir um hinar nýju reglur á næsta ári. Í grundvallaratriðum mun forgjafarútreikningurinn breytast þannig að forgjöf mun reiknast út frá meðaltali bestu átta hringjanna af þeim síðustu 20 sem kylfingurinn lék. Ný forgjöf tekur því mið af meðaltali síðustu hringja,“ segir Haukur Örn að lokum.