Andri Már Óskarsson, GOS, og Berglind Erla Baldursdóttir, GM, stóðu uppi sem sigurvegarar í Vormóti GM. Mótið var það fyrsta á GSÍ mótaröðinni í sumar og voru leiknar 36 holur yfir helgina.
Fyrirkomulag mótsins var breytt punktakeppni, og stigagjöfin eftirfarandi:
- Albatross: 8 punktar
- Örn: 5 punktar
- Fugl: 2 punktar
- Par: 0 punktar
- Skolli: -1 punktur
- Tvöfaldur skolli eða verra: -3 punktar
Fyrri keppnisdagur
GSÍ mótaröðin hófst formlega á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Sólin skein allan daginn en vindurinn gerði kylfingum erfitt fyrir. Fyrsta holl mótsins samanstóð af Axeli Bóassyni, Kristjáni Þór Einarssyni og Andra Má Björnssyni. Samanlögð forgjöf í því holli var +13.9.
Fyrri níu reyndust keppendum sérstaklega erfiðar, en þar voru 8 af 10 erfiðustu holum dagsins. Þegar komið var á seinni níu fóru keppendur að sækja fleiri fugla. Fimm ernir deildust á milli hola 10, 12 og 13, en ernir gefa fimm dýrmæt stig í breyttu punktakeppninni.
Aron Emil Gunnarsson og Einar Bjarni Helgason léku best í karlaflokki og komu inn með 8 punkta. Aron fékk fimm fugla og tvo skolla, á meðan Einar fékk átta fugla, tvo skolla og tvo tvöfalda skolla. Þéttur pakki er á eftir þeim og ljóst að hart verður barist um fyrsta titil ársins á morgun.
Í kvennaflokki var það Karen Lind Stefánsdóttir sem spilaði best. Hún kláraði hringinn á -9 punktum. Næst á eftir henni er Berglind Erla Baldursdóttir á -12 punktum. Þar á eftir er stutt á milli kvenna og spennandi verður að sjá hvernig þetta spilast á morgun.
Seinni keppnisdagur
Veðrið lék heldur betur við keppendur á seinni degi mótsins. Töluvert auðveldara var að sækja á pinna og skorið eftir því. Meðalskor mótsins lækkaði um 8 högg milli daga, og var rétt rúm 72 högg. 56 af 61 keppanda spilaði jafn vel eða betur á sunnudeginum. Frábær tilþrif sáust um allan völl og fuglunum rigndi inn.
Henning Darri Þórðarson átti besta hring mótsins þegar hann lauk leik með 17 punkta. Hringurinn samanstóð af sex fuglum, einum erni og ellefu pörum. Hringur upp á 63 högg, 8 undir pari.
Sara Kristinsdóttir átti besta hringinn í kvennaflokki. Hún fékk 8 punkta á seinni keppnisdegi. Sara fékk þrjá fugla, örn og þrjá skolla á hringnum. Glæsilegur hringur.
Úrslit karla
Í karlaflokki stóð Andri Már Óskarsson uppi sem sigurvegari með 20 punkta. Hann var þriðji eftir fyrri keppnisdaginn og lék frábært golf á þeim seinni. Fyrri níu holurnar lék hann á 30 höggum, þrátt fyrir skolla á níundu brautinni.
Einum punkti á eftir Andra Má var Tómas Eiríksson Hjaltested, GR. Tómas fékk flesta fugla allra í mótinu, fimmtán talsins, sem var þremur fuglum fleiri en næsti maður. Tómas og Andri Már skiptust á að halda forystunni í gegnum hringinn, og var spennandi að fylgjast með.
Aron Emil Gunnarsson, GOS, varð þriðji. Hann lék stöðugt og gott golf allan tímann og fékk fæsta skolla allra kylfinga. Einungis fjóra á 36 holum mótsins.

Úrslit kvenna
Í kvennaflokki var Berglind Erla Baldursdóttir, GM, best. Hún endaði mótið með -12 punkta. Berglind var með flesta fugla allra kvenna, en þeir eru dýrmætir í breyttu punktakeppninni.
Á eftir Berglindi var Sara Kristinsdóttir, GM. Líkt og áður kom fram átti Sara frábæran hring á seinni keppnisdegi, og bætti sig um 30 punkta á milli hringja.
Karen Lind Stefánsdóttir, GKG, hafnaði í þriðja sæti. Karen var efst eftir fyrri keppnisdag og spilaði gott golf á þeim síðari. Hún fékk flest pör allra í kvennaflokki.

Tölfræði
Keppendur voru alls 61, frá 8 klúbbum víðs vegar af landinu.
Í karlaflokki voru 51 keppandi. Meðalforgjöf í karlaflokki var +0.7, sú lægsta var +6.1 og sú hæsta var 3.6. Fimmtán kylfingar voru með +2 eða lægra í forgjöf. Fyrrum Íslandsmeistararnir Axel Bóasson og Kristján Þór Einarsson voru á meðal keppenda, sem og ríkjandi meistari Hvaleyrarbikarsins, Tómas Eiríksson Hjaltested.
Í kvennaflokki voru 10 keppendur. Meðalforgjöf keppenda var 3.3, sú lægsta var 0.2 og sú hæsta var 7.
GR á flesta keppendur í mótinu eða 19 talsins, GM var með 14 keppendur á meðan GK og GKG voru með 9.
Klúbbur | Konur | Karlar | Samtals |
GK | 1 | 8 | 9 |
GKB | 0 | 1 | 1 |
GKG | 2 | 7 | 9 |
GL | 0 | 3 | 3 |
GM | 5 | 9 | 14 |
GOS | 1 | 4 | 5 |
GR | 1 | 18 | 19 |
NK | 0 | 1 | 1 |
Meðalskor mótsins voru 76.48 högg, 38.49 á fyrri 9 og 37.99 á seinni 9.
Þrettánda holan spilaðist léttust allra í mótinu, en meðalskorið á par 5 holunni var 4.81. Þar fengu kylfingar 5 erni, 45 fugla, 48 pör og einungis 23 skor yfir pari.
Erfiðasta holan var sú 18., en holustaðsetningin á fyrri keppnisdegi reyndist kylfingum mjög strembin. Einungis 4 fuglar fengust á þeirri holu, allir á sunnudeginum. Þá voru 17 kylfingar sem fengu tvöfaldan skolla eða verra á holuna.
Fyrstu stigin á stigalista GSÍ
Vormót GM var fyrsta mót ársins á GSÍ mótaröðinni eins og áður sagði og eru kylfingar komnir með fyrstu stigin. Hér má sjá stöðu á stigalistum karla og kvenna.