Golfsamband Íslands

Vorskilaboð frá formanni Keilis

Frá Hvaleyrarvelli. Mynd/keilir.is

Frétt af heimasíðu Keilis:

Það er hverjum kylfingi eðlislægt að hugsa sér til hreyfings þegar sólin sýnir sig meir og meir á þessum árstíma. Lóan er komin og allir orðnir spenntir að hefja tímabilið. Enn má þó gera ráð fyrir einhverjum kulda áður en vorið hefur að fullu innreið sína.

Páskarnir eru jafnan sá tími sem kylfingar fara að huga að golfsettunum og mæta oftar og oftar í Hraunkot. Hjá þeim allra einbeittustu markar þessi tími lok þjálfunartímans og við tekur keppnis tímabilið, oftar en ekki með ferðum til heitari staða til að setja punktinn yfir i-ið.

Þjálfarar okkar eru einmitt í þessum töluðu orðum að leggja í slíka ferð með þjálfunarhópa okkar. Ferðinni er heitið til suðurhluta Spánar eins og undanfarin ár enda hitastig þar nú með ágætum. Iðkendur í þessum þjálfunarhópum hafa verið duglegir í vetur við æfingar og ekki hefur skemmt fyrir að aðstaða okkar batnaði til muna með tilkomu nýrra sveiflugreiningatækja og golfherma. (Flight scope).

Greiningartækin (golfhermarnir) sem keypt voru í vetur voru umtalsverð fjárfesting og er ánægjulegt að segja frá því að félagsmenn og aðrir viðskiptavinir okkar hafa sýnt þeim umtalsverðan áhuga og hafa áætlanir vegna þeirra gengið eftir. Ég hvet alla til þess að prófa umrædd tæki, annaðhvort í samráði við þjálfara eða án. Upplýsingar sem úr þeim má fá ættu að geta hjálpað flestum kylfingum. Nú strax eftir páskana eigum við svo von á nýjum mottum í Hraunkot og höfum nú þegar endurnýjað bolta í Hraunkoti.

Á dögunum kynnti Golfsamband Íslands Mótaskrá sumarsins. Mótaskráin er sú glæsilegasta hingað til að mínu mati. Á Eimskips mótaröðinni verða í sumar 8 mót í stað 6 áður. Hvet ég fólk til þess að kynna sér hana. Stærsta breytingin sem að okkur snýr hér í Keili er sú að við munum næstu árin halda eitt stærsta og glæsilegasta mót hvers sumars sem verður hluta af lokahrinu Mótaraðarinnar (Final four). Mótið sem haldið verður 15.júlí í sumar hlýtur heitið Hvaleyrarbikarinn og verður sérstakt að því leiti að boð í mótið hljóta einungis albestu kylfingar landsins hverju sinni. Markmið okkar í stjórn er að gera mótið hið glæsilegasta svo tekið verði eftir og festa það í sessi til framtíðar. Vil ég því nota tækifærið til þess að hvetja Keilismenn til þess að flykkja sér um verkefnið, bæði í formi þess að aðstoða við mótahaldið en ekki síður á þann máta að koma og fylgjast með okkar besta fólki í hörku keppni við bestu aðstæður.

Talandi um aðstæður þá er gaman að segja frá því að nú á vor mánuðum mun vinnu við yfirstandandi breytingar á Hvaleyrinni ljúka. Öll brautarvinna og sáning verður kláruð þannig að þegar völlurinn verður tekinn í notkun árið 2017 verða öll svæði að fullu gróin. Sérfræðingar segja mér að sáning sú sem að baki er á nýjum flötum hafi tekist vel og ástæða sé til bjartsýni.

Það er einnig ástæða að nefna það að útlit brauta og flata er mjög gott eftir veturinn þrátt fyrir umhleypingar og klakabunka á tímabili. Hitastig næstu vikna mun svo öllu ráða um það hvenær við getum opnað inn á flatir.

Fyrir þá tæknivæddustu er svo rétt að minnast á það að Keilir er kominn á Instagram #keilirgolf Markmið með því er að lifandi myndir úr starfinu séu í sífelldri endurnýjun. Til nánari útskýringa vísa ég til barna og barnabarna.

Kveðja

Formaður GK

Arnar Atlason

Frá Hvaleyrarvelli. Mynd/keilir.is
Frá Hvaleyrarvelli Myndkeiliris
Exit mobile version