Auglýsing

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is

Á Patreksfirði var stofnaður golfklúbbur 14. desember árið 1992. Vorið 1993 var hafist handa við uppbyggingu Vesturbotnsvallar. Aðalhvatamaðurinn að stofnun Golfklúbbs Patreksfjarðar var Jón Oddur Magnússon, trésmiður, og var hann fyrsti formaður GP. Páll Ágústsson, skólastjóri og kennari, hafði tuttugu árum áður stundað golf við frumstæðar aðstæður rétt utan við þorpið. Fáir sýndu golfíþróttinni áhuga á Patreksfirði á þessum tíma. 

Vel gekk að byggja upp nýjan golfvöll við Vesturbotn eftir stofnun klúbbsins. Félagsmenn lögðust allir á eitt í sjálfboðavinnu og mikill kraftur var í starfi klúbbsins á þessum tíma. Völlurinn var vígður 11. júlí árið 1993. Árið 2004 var íbúðarhúsið við Vesturbotn rifið og nýju klúbbhúsi var komið fyrir. Gömul bensínstöð hýsir starfsemi klúbbsins og er húsið rúmgott. 

Vesturbotnsvöllur er í um 5 mínútna akstursfjarlægð frá Patreksfirði. Völlurinn er vestar en nokkur annar golfvöllur í Evrópu. Í langan tíma var hlutfall kvenna í klúbbnum með því hæsta á landsvísu en helmingur félaga í Golfklúbbi Patreksfjarðar voru konur. 

Mikil umferð á Vesturbotnsvelli sumarið 2019 

Sigurður Viggósson hefur verið formaður Golfklúbbs Patreksfjarðar á undanförnum árum. Við hittum Sigurð í blíðskaparveðri síðdegis á föstudegi seint í júlí. Sigurður starfaði lengi sem framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Odda en í dag er hann í „venjulegri“ 9–5 vinnu sem framkvæmdastjóri Tölvuþjónustu Vestfjarða og getur því leikið meira golf en áður. 

„Það sést nú varla á getu minni úti á vellinum, þetta hlýtur samt að fara að koma allt saman. Ég er mun duglegri að spila núna en áður og taka þátt í mótum. Ég er með 26 í forgjöf og markmiðið er að lækka í forgjöf. Það hefur reyndar ekkert gengið of vel, ég hækka um 0,1 í hvert sinn sem ég fer í mót,“ segir Sigurður í léttum tón þegar við setjumst niður fyrir utan klúbbhúsið á Vesturbotnsvelli. 

Sigurður segir að mikil umferð hafi verið á Vesturbotnsvelli sumarið 2019.

„Veðrið lék við okkur hér á svæðinu. Það hefur sjaldan verið eins mikil umferð hér og völlurinn í ágætu standi þegar líða fór á sumarið.“

Sigurður Viggósson, formaður Golfklúbbs Patreksfjarðar.

Starfið hjá Golfklúbbi Patreksfjarðar var að sögn Sigurðar í töluverðri lægð fyrir 2–3 árum en hann er sannfærður um að bjartari tímar séu framundan. 

„Í dag eru 37 félagsmenn en þeir voru 31 í fyrra. Þannig að við erum að snúa við blaðinu. Það fækkaði hratt í klúbbnum á síðustu árum. Margir fluttu í burtu og einnig eru nokkrir af frumkvöðlunum fallnir frá. Það er bjartara yfir núna. Ungt fólk er að hefja búsetu á Patreksfirði. Þar eru laxeldið og ferðaþjónusta stærstu áhrifavaldarnir í uppbyggingunni,“ segir Sigurður en dregur ekki úr því að um tíma hafi hann óttast um að klúbburinn yrði lagður niður.

Fleiri myndir frá Vesturbotnsvelli eru hér:

„Þetta gaf aðeins eftir hjá okkur, síðustu ár hafa verið erfið. Við vorum nánast búin að gefast upp fyrir þremur árum og það ríkti ekki mikil bjartsýni. Flestar vélarnar sem við áttum til að hirða völlinn voru bilaðar eða ónýtar. Það vantaði fjármagn og kraft í innra starfið hjá okkur. Sem betur fer fórum við af stað að afla stuðnings frá fyrirtækjum hér á svæðinu. Það verkefni tókst vel og við erum þakklát fyrir stuðninginn úr nærsamfélaginu. Við fengum einnig góðan mann til að sjá um golfvöllinn yfir sumartímann. Það er töluverð þensla í atvinnulífinu hérna og erfiðara að fá fólk til starfa yfir sumarið.“

Sjálfboðaliðastarf er lífæð klúbbsins

Sigurður hefur búið alla sína ævi á Vestfjörðum en hann er fæddur á Tálknafirði. 

„Ég hef búið á Patreksfirði nánast alla mína tíð. Það voru vinnufélagar mínir sem drógu mig af stað í golfið á sínum tíma,“ segir Sigurður þegar hann var inntur eftir því hvernig hann byrjaði í golfíþróttinni.

„Konan mín, Anna Jensdóttir, fór með mér í þetta á sínum tíma. Hún hefur því miður ekki getað stundað golfið undanfarin ár vegna veikinda. Golfið var fjölskylduíþróttin hjá okkur, krakkarnir voru með í þessu, og þetta var hreyfing sem ég kunni að meta. Ég er ekki mikið fyrir að ganga bara til að ganga. Mér finnst golfið vera frábær útivera og það sama á við um fjallgöngur sem ég stunda talsvert og hef gaman af.“ 

„Sjálfboðaliðastarf er það sem hefur einkennt allt starf Golfklúbbs Patreksfjarðar. Ef það væri ekki til staðar væri lítið um að vera hjá okkur. Vallarstarfsmaðurinn er í vinnu frá 15. maí til 15. ágúst. Félagsmenn verða að taka önnur verkefni að sér. Sem betur fer hafa bæst í okkar hóp kylfingar sem starfa sem smiðir hér á svæðinu. Þeir hafa lagt sitt af mörkum í alls konar verkefni. Golfklúbburinn fékk arf frá fyrrum eiganda jarðarinnar við Vesturbotn sem hefur verið varasjóður klúbbsins. Upphæðin var um 5 milljónir kr. og þessi gjöf hélt klúbbnum gangandi þegar mest á reyndi.“ 

Fleiri myndir frá Vesturbotnsvelli eru hér:

Golfíþróttin er góð fyrir almenna lýðheilsu

Formaðurinn vonast til þess að þeir sem forgangsraða útsvarinu í Vesturbyggð horfi enn betur á þá kosti sem golfíþróttin hefur upp á að bjóða – og þá sérstaklega hvað varðar lýðheilsu.   

„Stuðningurinn frá bæjarfélaginu Vesturbyggð er óverulegur að okkar mati. Það má alltaf gera betur í þeim efnum. Við höfum bent á að golfíþróttin er góð fyrir almenna lýðheilsu þeirra sem hana stunda. Sveitarfélagið hefur frekar beint athygli sinni að börnum og unglingum. Það er gott mál en það mætti líka horfa á það starf sem unnið er fyrir þá sem eldri eru. Staðsetning Vesturbotnsvallar gerir það að verkum að það er ekki í boði fyrir krakka að hjóla hingað yfir sumartímann. Það er mjög erfið brekka á leiðinni til baka inn á „Patró“ og það er einnig slysahætta af því að hjóla á þjóðveginum. Rögnvaldur Ólafsson, golfkennari, hefur komið hingað til okkar af og til. Þær heimsóknir kveikja neistann hjá mörgum en það hefur vantað að halda áhuganum við yfir sumartímann. Það væri gleðiefni ef einhver gæti sinnt golfkennslu í þessum landshluta yfir sumartímann í það minnsta,“ segir Sigurður Viggósson formaður Golfklúbbs Patreksfjarðar. 

Fleiri myndir frá Vesturbotnsvelli eru hér:

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ