Stefnumótunarfundur Golfsambands Íslands fór fram á Fosshótel Reykjavík þann 20. september. Fundurinn val vel sóttur af helstu áhrifavöldum golfhreyfingarinnar. Mikil uppbyggileg umræða átti sér stað og áherslur komandi ára mótaðar.
Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, opnaði fundinn og bauð þátttakendur velkomna.
Að því loknu fór Arnar Geirsson yfir niðurstöður úr samtölum GSÍ við klúbbana, sem fram fóru í vor. Hann sýndi einnig uppfærðar tölur golfiðkenda á landinu og fór yfir þann mikla vöxt sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.
Áhersla var lögð á framtíðarsýn þátttakenda. Umræðuefni og umhugsunarpunktar voru bornir upp og fékk hvert borð 45 mínútur til að ræða málin. Eftir umræðu á hverju málefni kynntu borðin sínar niðurstöður. Gaman var að sjá frábærar viðtökur og þátttöku fólks á fundinum – framtíðin er björt.








