Golfsamband Íslands

Vel heppnað haustþing PGA golfkennara á Selfossi

Haustþing PGA golfkennara 2015 fór framá Selfossi helgina 11.-13. september s.l.  Þingið er hluti af endurmenntun golfkennara á Íslandi og var dagskráin var spennandi og áhugaverð segir í tilkynningu frá PGA á Íslandi.

Gist var á Hótel Selfossi og leikið golf á Gufudalsvelli í Hveragerði og Svarfhólsvelli á Selfossi.

Endurmenntun er mikilvægur þáttur hjá golfkennurum og er helgi eins og þessi mikilvæg fyrir PGA samtökin. Það eru miklar vonir bundnar við að viðburður eins og þessi verði árlegur hér eftir en alls tóku 20 PGA kennarar þátt.

Á föstudeginum hélt Niklas Bergdahl fyrirlestur um Trackman, en hann er sænskur sérfræðingur á því sviði.

Það hefur færst í aukanna að golfklúbbar fjárfesti í útbúnaði eins og Trackman. Niklas er hafsjór fróðleiks og afar lærdómsríkt fyrir golfkennarana að fá svo góðan fyrirlesara hingað til lands. Eftir fræðslu um morguninn var leikinn betri bolti á Svarhólfsvelli á Selfossi. Á föstudagskvöldið kynnti svo Davíð Gunnlaugsson nýútskrifaður golfkennari lokaverkefni sitt og Snorra Páls Ólafsonar en verkefnið sneri að brottfalli úr golfíþróttinni hérlendis ásamt viðhorfi íslenskra kylfinga til golfkennslu.

Á laugardeginum var Nökkvi Gunnarsson með Aimpoint fræðslu sem er afar áhugaverð aðferð í lestri á flötum. Nökkvi er menntaður Aimpoint sérfræðingur og er Aimpoint árangursrík leið til þess að lesa flatir fyrir alla kylfinga óháð getu. Seinni part laugardags var leikið Texas Scramble mót í Hveragerði áður en haldið var í veislu á Hótel Selfoss og verðlaunaafhendingu.

Á haustþinginu voru einnig afhent verðlaun fyrir Samsung mótaröð PGA sem leikin var í sumar. Veitt voru verðlaun fyrir 3 efstu sætin á stigalistanum en úrslit voru:

1. Hlynur Geir Hjartarson
2. Þórður Rafn Gissurason
3. Davíð Gunnlaugsson

Á mótaröðinni var einnig spilað um sæti í liði PGA á ITC mótinu sem fram fer í Tyrklandi 8-11. desember næstkomand. 3 efstu sæti golfkennara á stigalista skipa liðið og er það því þannig skipað, Hlynur Geir, Davíð Gunnlaugsson og Nökkvi Gunnarsson. Mótið fer fram á hinu glæsilega golfsvæði Gloria og er tilhlökkun í liðinu.

 

Exit mobile version