Vallarmatskerfið

Golfsambandið hefur einkaleyfi á að meta golfvelli á Íslandi í samræmi við reglur Golfsambands Evrópu (EGA) og Golfsambands Bandaríkjanna (USGA). Vallarmat er framkvæmt af viðurkenndum matsmönnum, sem hafa hlotið þjálfun hjá þar til bærum aðilum. Matið er miðað við eðlilegt ástand vallar og sumarveður, þar sem hver hola er metin með tilliti til raunverulegrar leiklengdar og atriða sem gera leikinn erfiðari.

Vallarmatsmenn taka út öll lendingarsvæði, þar með taldar flatir, af öllum teigum. Þeir mæla dýpt á glompum, breidd brauta, stærð flata og fjarlægð frá miðju brauta og flata í hindranir. Helstu hindranir eru kargi, vallarmörk, glompur, vítasvæði, tré og vindur. Þá er metinn halli á brautum, áhrif hans á rúll boltans með og á móti og áhrif hliðarhalla. Hraði bolta á flötum er mældur með þar til gerðu áhaldi, svokölluðum “Stimpmeter”. Metin er staða kylfings við brautarhögg og hæðarmismunur við innáhögg á flatir. Margt annað kemur til skoðunar hjá matsmönnum, en eftir mælingar og skoðun á völlum er öllum upplýsingum breytt í tölur frá 1-10 samkvæmt töflum í handbók. Þessar tölur eru síðan slegnar inn í forrit hjá USGA. Forritið skilar tveimur niðurstöðutölum (Vallarmati og Vægi) fyrir hverja mælingu karla og kvenna af viðkomandi teigum. Vallarmat er höggafjöldi scratch kylfings með einum aukastaf en vægi er birt sem heil tala á bilinu 55-155. Hér má nálgast handbók vallarmats USGA.

Golfvöllur verður að ná minnst 1.400 metrum á 18 holum til að geta fengið vallarmat eða 700 metrum á 9 holu velli.

Hægt er að skipta vallarmati alveg frá undirbúningi að útgáfu vallarmats í þrjú skref sem golfklúbburinn og vallarmatsnefnd verða að stíga í sameiningu.

Spurt og svarað

Hvað þarf golfklúbburinn að gera áður en að vallarmati kemur?

Tilnefna fulltrúa innan golfklúbbsins sem verður í samskiptum við golfsambandið og vallarmatsmenn vegna vallarmatsins. Æskilegt er fyrir fulltrúa golfklúbbsins að fara yfir helstu breytingar, sláttuhæð og ýmis atriði með vallarmatsmönnum, áður en vallarmatið hefst. En athugið að spurningum um mögulega útkomu vallarmatsins getur hópurinn ekki svarað á þeim tímapunkti.

Völlurinn verður að vera mældur og lengdir þurfa að liggja fyrir. Það eru margar ástæður fyrir því að leggja metnað í mælingar á vellinum. Sú mikilvægasta er að vallarmatið byggir að verulegu leyti á lengd vallarins.

Hvernig á golfklúbbur að mæla lengd vallar?

Hverja braut skal mæla lárétt (loftlínu) með rafrænum búnaði til mælinga, landmælingatækjum eða GPS, frá varanlegum teigmerkjum sérhvers teigssvæðis á vellinum og inn á miðja flöt. Til að lengd brautar verði rétt mæld samkvæmt reglum USGA verður að setja niður varanleg merki á teigum, finna brotalínu í boga (dogleg) og miðju flatar. Golfklúbburinn lætur framkvæma mælinguna, með fyrirvara um endurskoðun og eftirlit vallarmatsnefndar sem gefur út vallarmatið.

Varanleg teigmerki verða að vera kominn niður í teiga áður mælingar hefjast!

Brautir eiga að mælast með fjarlægðarmælum þar sem skekkjan er ekki meiri en +/- 50 cm. Samkvæmt reglum USGA á braut að mælast lárétt frá varanlegu teigmerki eftir leiklínu sem golfvallarhönnuðurinn gerði ráð fyrir og inn á miðju flatar.

Holu sem liggur í boga (dogleg) verður að mæla eftir beinni línu frá teignum á miðja braut í miðja brotalínu. Athugið frá miðri brotalínu og að hámarki 18 metra frá innri endamörkum brautar.

Sé beygjuásinn ekki auðgreindur á að velja beygjuás sem er u.þ.b. 206 metra fyrir karla eða 192 fyrir konur frá þeim teigum sem meirihluti kylfinga notar. Mælingin verður að vera frá þessum stað, í beina línu inn að flatarmiðju eða í næsta beygjuás.

 

Aðeins par 5 brautir geta haft fleiri en eina brotalínu. Á par 4 braut hefur scratch kylfingur ekki nema eitt lendingarsvæði því hann leikur sínu öðru höggi beint á flöt. Ef hann nær því ekki einhvera hluta vegna má mæla frá brotalínu tvö.

Hvar á að staðsetja varanleg teigmerki?

Rétt og nákvæm staðsetning á varanlegu teigmerki er mjög mikilvæg.

USGA setur það sem skilyrði að varanleg teigmerki séu sett að lágmarki 4 metra frá afturhluta teigs og meira en 2 metra frá framhluta teigs.

 

Varanlegt teigmerki er sett niður þvert af miðju teigs til hægri eða vinstri. 

 

Hvernig skiptir par vallar máli?

Par er ekki góður mælikvarði á það hve erfiður golfvöllur sé og er ekki þáttur í vallarmatskerfi USGA. Tveir golfvellir með sama Par geta verið mjög ólíkir að lengd og hönnun. Par endurspeglar það skor sem ætlast má til að kylfingur með 0 í leikforgjöf leiki ákveðna holu á. 

Par fyrir hverja holu ákvarðast af golfklúbbi eða öðrum aðila sem ábyrgur er fyrir viðkomandi golfvelli með tilliti til mældrar lengdar og erfiðleika holunnar. Það er mikilvægt að rétt par sé í gildi fyrir hverja holu golfvallar. Mælt er með að par hverrar holu sé ákveðið í samræmi við neðangreindar lengdir.

 

Hvað er gert ráð fyrir scratch og bogey kylfingar slái langt?

Högglengdir notaðar í vallarmati
Allar lengdir eru í metrum – fyrir konur í [sviga]

 

Geta staðarreglur haft áhrif á vallarmat?

Samkvæmt vallarmatskerfi USGA verða vellir einungis metnir með hliðsjón af gildandi golfreglum.

Hvað hefur áhrif á forgjafarskilyrði?

Fremri mörk teigasvæðis eins og þau eru skilgreind í golfreglunum ættu ekki að vera meira en 10 metrum fyrir framan eða aftan varanlegt teigmerki hverrar holu.

Almennt ætti ekki að stytta eða lengja golfvöll meira 100 metra frá mældri lengd til að tryggja að hægt sé að nota rétt vallarmat og vægi við útreikning á skormismun leikmanns. Mikilvægt að halda lengd og erfiðleika vallar eins yfir allt tímabilið.

Ef verið er að breyta vellinum á að láta Golfsambandið vita um þær framkvæmdir annars er hætta á að Golfsambandið þurfi að ógilda forgjafarhringi sem leiknir voru á breyttum velli. 

Hvað ef breytingar eru fyrirhugaðar á vellinum?

Golfklúbburinn skal tilkynna Golfsambandinu þegar tímabundnar breytingar eru gerðar á golfvellinum, sem gætu haft áhrif á vallarmat hans. Golfsambandið ákveður hvort skor leikmanna þar sem leikið er við þessar aðstæður skuli vera gild til forgjafarútreiknings og hvort breyta skuli vallarmati og vægi tímabundið.

Ef mismunurinn er innan við 100 metrar á 18 holu velli þarf ekki að gera neinar breytingar og hægt að skila skorum til forgjafarútreiknings eins og venjulega.

 

Ef mismunurinn er 100 til 274 metrar skal nota neðangreinda töflu til að ákveða leiðréttingar til að gefa út tímabundið vallarmat og vægi.

 

 

Séu varanlegar breytingar fyrirhugaðar á vellinum skal tilkynna það Golfsambandinu.

Varanlegar breytingar á golfvelli kalla á að Golfsambandið endurmeti gildandi vallarmat og vægi og/eða ákveði hvort endurmat sé nauðsynlegt.

Afhverju fæ ég ekki meira í vallarforgjöf á þessum velli?

Hér verður að passa sig að bera ekki saman epli og appelsínur.

 

Forgjafarkerfið reiknar vallarforgjöf kylfinga eftir reglunni:

 

Vallarforgjöf = Forgjöf x (Vægi/113) + ( Vallarmat – PAR)

 

Leiki kylfingur með 18,5 í forgjöf af teig með par 72, Vallarmat 69,5 og Vægi 113 þá reiknast forgjöf hans þannig:

 

Vallarforgjöf = 18,5 x (113/113) + (69,5-72) = 16,0

 

Þessi útkoma bendir til þess að völlurinn sé “léttur” en svo þarf ekki endilega að vera. Parið getur verið athugunar virði. Í viðauka F í forgjafarreglunum segir t.d. að par 5 holur karla eigi að vera 415 metrar eða lengri. Sé þetta 9 holu völlur og ein braut með óþarflega hátt par, t.d. 380 metra braut með par 5 þá myndi lækkun á þessu pari úr 5 í 4 hækka vallarforgjöf ofanritaðs kylfings í 18. Hann mundi væntanlega leika völlinn á jafn mörgum höggum, en fengi tveimur höggum hærri vallarforgjöf.

 

Tveir golfvellir sem eru með svipaða heildarlengd á gulum teigum karla geta verið með mjög mismunandi Vallarmat og Vægi. Kylfingar freistast oft til að álykta að eitthvað sé bogið við annað hvort matið. Yfirleitt er matið rétt en margt ólíkt með völlunum. Taka má dæmi af tveimur völlum á höfuðborgarsvæðinu. Völlur A er 5.412 metrar af gulum teigum og völlur B 5.428 metrar af gulum teigum. Völlur A er með Vallarmat 69,1, Vægi 117 og par 72. Völlur B er með Vallarmat 70,3, Vægi 134 og par 71. Samkvæmt þessum tölum fá karlar af gulum teigum mun hærri vallarforgjöf á velli B.

 

Á ofannefndum völlum er samsetning á holum mjög breytileg. Völlur A er með fjórar par 3 holur og tíu par 4 holur af þeim síðarnefndu eru fimm holur vel innan við 300 metrar á lengd. Völlur B er með sex par 3 holur og sjö par 4 holur, allar yfir 300 metrar. Par 5 holur eru jafnmargar. Meðallengd á par 4 holum á velli A er 35 metrum styttri en á velli B. Meðaltal þvermáls flata á velli A er 6 metrum hærra en á velli B. Stutt aðhögg á stóra flöt gefa minna í erfiðleika en löng högg á litla flöt.

Orðskýringar

Vallarmat er tala sem sýnir hve golfvöllur er metinn erfiður kylfingi með forgjöfina 0 og lægri (scratch-kylfingi) miðað við eðlilegt ástand vallar og veðurs. Talan er sýnd sem höggafjöldi með einum aukastaf.

Vægi er skilgreint sem viðmiðunartala sem gefur til kynna hve völlur sé hlutfallslega erfiður með tilliti til vallarmats fyrir kylfinga sem ekki hafa 0 í forgjöf. Vísitölugolfvöllurinn, í meðallagi erfiður til viðmiðunar, hefur vægið 113.

Vægi er fengið með þessari formúlu: (Bogey rating-CR)*fasti. Hjá körlum er fastinn 5,381, en konum 4,24. Semsagt mismunur á því sem vallarmatsnefnd metur að bogey leikmaður spili völlinn á að fradregnu því skori sem nefndin telur að scratch leikmaður spilar hann á (CR), sinnum kynbundin fasti.

Vægi > 113
Erfiðara er fyrir kylfing með 20 í forgjöf að leika á sinni forgjöf heldur en scratch-kylfing með 0 í forgjöf. Mismunur á leikforgjöf er meiri en 20.

Vægi = 113
Jafn erfitt er fyrir kylfing með 20 í forgjöf og scratch-kylfing með 0 í forgjöf að leika á sinni forgjöf. Mismunur á leikforgjöf er 20.

Vægi < 113
Auðveldara er fyrir kylfing með 20 í forgjöf að leika á sinni forgjöf heldur en scratch-kylfing með 0 í forgjöf. Mismunur á leikforgjöf er minni en 20.

United States Golf Association eða Bandaríska golfsambandið.

European Golf Association eða Golfsamband Evrópu.

Er kylfingur sem getur leikið samkvæmt leikforgjöf 0 á hvaða metnum golfvelli sem er.

Karlkyns Scratch kylfingur, getur hvað matið varðar, slegið teighögg að meðaltali 228 metra og náð að 430 metra langri holu í tveimur höggum.

Kvennkyns Scratch kylfingur getur hvað matið varðar, slegið teighögg að meðaltali 192 metra og náð að 366 metra langri holu í tveimur höggum.

Karlkyns Bogey-kylfingur er með um það bil 20 í leikforgjöf á golfvelli sem er í meðallagi erfiður. Hann getur slegið að meðaltali 183 metra af teig og 339 metra langri holu í tveimur höggum .

Kvennkyns Bogey-kylfingur er með er með um það bil 24 í leikforgjöf á golfvelli sem er í meðallagi erfiður. Hún getur slegið að meðaltali 137 metra af teig og að 256 metra langri holu í tveimur höggum.

Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ