Undankeppni fyrir Íslandsmótið í golfi 2025 fór fram á Hvaleyrarvelli í dag. Leikið var um síðustu tíu sætin í karlaflokki og síðustu fimm sætin í kvennaflokki Íslandsmótsins.
Þetta er í þriðja skiptið sem undankeppnin fer fram, en mikil skráning var í Íslandsmótið, sem hefst í næstu viku. 35 kylfingar léku í karlaflokki og 7 í kvennaflokki.
Hvaleyrarvöllur er í frábæru standi og mátti sjá mikið af góðum tilþrifum á vellinum. Veðrið var gott meirihluta dags og kylfingar nýttu sér aðstæður vel.
Spennandi var að fylgjast með hvaða kylfingar kæmust áfram. Einungis munaði einu höggi á 5. og 6. sæti kvennaflokksins, og þurfti að leika bráðabana um síðasta lausa sætið í karlaflokki.
Í karlaflokki léku þeir Björn Breki Halldórsson, GKG, og Orri Bergmann Valtýsson, GBR, best, á pari vallarins. Spilamennska þeirra beggja var stöðug allan hringinn og lítið um skolla. Björn fékk tvo fugla og tvo skolla á meðan Orri fékk einn fugl og einn skolla.

Tveir kylfingar voru jafnir í 10. sæti á fjórum höggum yfir pari, og þurfti að leika bráðabana um síðasta lausa sætið. Það voru þeir Hilmar Snær Örvarsson, GKG, og Kristján Karl Guðjónsson, GM. Leikin var 16. holan, sem er af mörgum talin ein strembnasta par 5 hola landsins. Frábært par Hilmars dugði til sigurs, og hann því á leið í Íslandsmótið.
Í kvennaflokki lék Sigurást Júlía Arnarsdóttir, GK, best. Hún lauk leik á 80 höggum, átta yfir pari. Hún skildi sig að með frábærum seinni níu holum, þar sem hún lék tvo yfir pari.

Katrín Embla Hlynsdóttir, GOS, og Karitas Líf Ríkarðsdóttir, GR, voru jafnar í 5. sæti fyrir lokaholuna. Þar fékk Katrín par og Karitas skolla, og Katrín sótti með því síðasta sætið inn í Íslandsmótið.
Karlaflokkur:
Sæti | Kylfingur | Skor | Klúbbur |
T1 | Björn Breki Halldórsson | Par | GKG |
T1 | Orri Bergmann Valtýsson | Par | GBR |
T3 | Benjamín Snær Valgarðsson | +2 | GKG |
T3 | Óliver Elí Björnsson | +2 | GK |
T3 | Máni Páll Eiríksson | +2 | GOS |
T3 | Þorsteinn Brimar Þorsteinsson | +2 | GR |
T7 | Arnór Daði Rafnsson | +3 | GM |
T7 | Karl Ottó Olsen | +3 | GR |
T7 | Kristinn Árnason | +3 | GÚ |
10. | Hilmar Snær Örvarsson | +4 | GKG |
Kvennaflokkur:
Sæti | Kylfingur | Skor | Klúbbur |
1. | Sigurást Júlía Arnarsdóttir | +8 | GK |
T2 | Lovísa Huld Gunnarsdóttir | +10 | GSE |
T2 | Gunnhildur Hekla Gunnarsdóttir | +10 | GKG |
4. | Dagbjört Sísí Einarsdóttir | +11 | GSS |
5. | Katrín Embla Hlynsdóttir | +15 | GOS |