Golfsamband Íslands

Til hamingju með 100 ára afmælið Stefán

Stefán Þorleifsson, elsti kylfingur landsins, er 100 ára í dag 18. ágúst
Afmælismót fer fram á sunnudaginn á Grænanesvelli í Neskaupstað
Norðfirðingurinn leikur golf á hverjum degi ef færi gefst til

Stefán Þorleifsson er elsti kylfingur landsins en heiðursmaðurinn frá Neskaupstað fagnar 100 ára afmæli sínu í dag 18. ágúst. Stefán er einn af stofnfélögum Golfklúbbs Norðfjarðar og nýtir hann hvert tækifæri til þess að leika á hinum fallega Grænanesvelli.

Í samtali við Golf á Íslandi í apríl s.l. sagði Stefán að það væri góð tilfinning að fara inn í golfsumarið 2016 þar sem 100 ára afmælið yrði hápunkturinn. Haldið verður upp á 100 ára afmælið laugardaginn 20. ágúst og afmælismót honum til heiðurs fer fram sunnudaginn 21. ágúst.

Stefán er heilsuhraustur enda hefur hann hreyft sig reglulega alla tíð, í ýmsum íþróttagreinum. Hann fer daglega í sund og reynir að leika golf eins oft og hægt er.

„Það fer eftir veðri hversu oft ég fer í golf í hverri viku,“ segir Stefán þegar hann er inntur eftir því hvernig hinn hefðbundni golfdagur sé hjá honum. „Venjulega fer ég á hverjum degi upp á Grænanesvöll og þá oftast eftir hádegi því ég fer í sund á morgnana. Oftast spila ég einn 9 holu hring.

Stolt okkar hér á Neskaupstað er Grænanesvöllurinn, bæði staðsetningin á honum og skipulag hans og ekki síst það hve vel hann hefur verið hirtur á undanförnum árum.  Öll aðstaða á vellinum, bæði æfingaaðstaðan og golfskálinn, er til fyrirmyndar miðað við stærð golfklúbbsins.“

„Keppnisskapið er enn til staðar, en það þýðir nú lítið að ætla sér að bæta leik sinn þegar maður er kominn á tíræðisaldur,“ segir Stefán. Hann tók þátt í tveimur mótum á síðasta ári en ætlar að láta eigið afmælismót, Stefánsmótið, duga á árinu 2016.

[pull_quote_right]Keppnisskapið er enn til staðar, en það þýðir nú lítið að ætla sér að bæta leik sinn þegar maður er kominn á tíræðisaldur[/pull_quote_right]

Golf á Íslandi óskaði eftir heilræðum frá Stefáni fyrir aðra kylfinga sem vilja feta í fótspor hans og leika golf á aldarafmælinu.

„Ég hvet alla sem kynnst hafa þessari íþrótt að halda áfram að stunda hana á meðan heilsa og áhugi er fyrir hendi. Í golfi er maður alltaf að keppa við sjálfan sig,“ sagði Stefán Þorleifsson, elsti kylfingur landsins sem gæti án efa leikið undir aldri í sumar.

[pull_quote_left]Ég hvet alla sem kynnst hafa þessari íþrótt að halda áfram að stunda hana á meðan heilsa og áhugi er fyrir hendi. Í golfi er maður alltaf að keppa við sjálfan sig[/pull_quote_left]

Golfsamband Íslands óskar Stefáni hjartanlega til hamingju með afmælið.

st5-2


Exit mobile version