Þing Golfsambands Íslands 2025 fer fram á Berjaya Reykjavik Natura Hótelinu dagana 14.-15. nóvember.
Föstudaginn 14. nóvember fer fram málþing og hefst dagskráin opinberlega kl.15:00. Farið verður yfir nýja stefnu Golfsambandsins til ársins 2030, helstu markmið hennar og áherslur. Þá mætir Morten Backhausen, framkvæmdastjóri danska golfsambansins, og ræðir um dönsku leiðina. Andreas Norfelt, forstjóri GolfBox, fer með síðasta fyrirlestur föstudagsins en að honum loknum verða umræður um nefndarstörf sambandsins.
Þingið sjálft fer fram laugardaginn 15. nóvember. Dagskráin verður þétt, en reiknað er með að þingið standi frá 09:00 til 16:00.
Fyrir hádegi kynnir Golfklúbbur Akureyrar sína framtíðarsýn, drög að Golfmiðstöð GSÍ verða frumsýnd, ársreikningur lagður fram o.fl.
Eftir hádegi fara kosningar fram ásamt nefndaálitum og öðrum tillögum.
Dagskrá þingsins má sjá í heild sinni hér að neðan.


Fulltrúafjöldi hvers klúbbs fer eftir félagafjölda 16 ára og eldri. Tveir fulltrúar fyrir fyrstu 300 félaga eða færri. Síðan einn fulltrúi fyrir hvert byrjað hundrað.
Golfklúbbur Reykjavíkur á flesta fulltrúa á þinginu, alls 35. Þar á eftir koma Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar með 21 og Golfklúbbur Mosfellsbæjar með 20.

