Íslandsmótið í golfi 2025 fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis, dagana 7.-10. ágúst.
Fjölmargir keppendur taka þátt í mótinu í ár og þurfti að leika undankeppni um síðustu lausu sæti mótsins. Á meðal keppenda eru fremstu kylfingar landsins, atvinnukylfingar og margir fyrrverandi Íslandsmeistarar í golfi.
Smelltu hér til að sjá keppendalistann í heild sinni:
Kvennaflokkur:
Í kvennaflokki er meðalforgjöfin 0.84, sem er lægsta meðalforgjöfin í ár. Lægsta forgjöf flokksins er +5.4, sem er forgjöf Ragnhildar Kristinsdóttur. Hún hefur enn ekki leikið á GSÍ mótaröðinni í sumar, en hefur náð frábærum árangri á LET Access mótaröðinni. Hún varð í júlí fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna á mótaröðinni, og situr í fimmta sæti stigalistans. Ragnhildur varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið árið 2023, en hún hefur þrisvar hafnað í öðru sæti mótsins.
Ríkjandi Íslandsmeistari kvenna, Hulda Clara Gestsdóttir, er einnig á meðal keppenda. Þetta er fyrsta mót Huldu á GSÍ mótaröðinni í sumar, en hún leikur í háskólagolfinu í Bandaríkjunum með University of Denver. Hulda hefur unnið mótið tvisvar, á Hólmsvelli árið 2024 og á Jaðarsvelli árið 2021.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir tekur einnig þátt í mótinu. Guðrún hefur leikið á LET og LET Access mótaröðunum í sumar, en LET mótaröðin er stærsta svið atvinnukylfinga í Evrópu. Guðrún vann Íslandsmótið þrjú ár í röð á tímabilinu 2018-2020, og hefur náð þeim ótrúlega árangri að vera átta sinnum í efstu þremur sætum mótsins.
Heiðrún Anna Hlynsdóttir kemur inn í mótið sem efsti kylfingur stigalistans. Hún hefur unnið öll þau fjögur mót sem hún hefur tekið þátt í í sumar, og stefnir að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á Hvaleyrarvelli í ár. Heiðrún hefur leikið frábært golf í allt sumar og hefur tryggt sér stigameistaratitil kvenna áður en Íslandsmótið fer fram.
Á vellinum má einnig finna fleiri frábæra kylfinga, þ.á.m. fyrrverandi Íslandsmeistarana Perlu Sól Sigurbrandsdóttur, Þórdísi Geirsdóttur og Ragnhildi Sigurðardóttur.
Karlaflokkur
Í karlaflokki er meðalforgjöfin +2.03, sem er sú lægsta á tímabilinu. 72 kylfingar eru með forgjöf undir 0, en þar á meðal eru margir fyrrverandi Íslandsmeistarar.
Tómas Eiríksson Hjaltested er með lægstu forgjöf mótsins, +5.7. Tómas er efsti kylfingur stigalistans og hefur leikið frábærlega á GSÍ mótaröðinni í sumar. Hann hefur verið í efstu fimm sætunum í öllum mótum sumarsins, og þrisvar endað í öðru sæti. Hann hefur þó enn ekki unnið á tímabilinu og stefnir að sigri í því elsta og virtasta. Tómas sigraði í Hvaleyrarbikarnum á síðasta ári, og hefur því góða reynslu af vellinum.
Dagbjartur Sigurbrandsson kemur þar á eftir, með forgjöfina +5.6. Dagbjartur lauk háskólanámi sínu í Bandaríkjunum fyrr í sumar og hefur einungis keppt á einu móti hérlendis. Þar lék hann í Korpubikarnum, þar sem hann hafnaði í 3. sæti eftir frábæra spilamennsku.
Atvinnukylfingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru báðir á meðal keppenda í mótinu. Báðir leika þeir á HotelPlanner Tour mótaröðinni í Evrópu, sem er sú næststerkasta á eftir Evrópumótaröðinni. Guðmundur og Haraldur hafa báðir orðið Íslandsmeistarar, Haraldur árið 2012 á Strandarvelli og Guðmundur árið 2019 á Grafarholtsvelli.
Heimamenn í Golfklúbbnum Keili hafa reynst sigursælir í karlaflokki. Axel Bóasson hefur unnið mótið þrisvar, meðal annars þegar mótið var haldið á vellinum síðast árið 2017. Hann stefnir að sínum fjórða sigri í ár.

Margir fyrrverandi Íslandsmeistarar verða á svæðinu, þ.á.m. Aron Snær Júlíusson, ríkjandi Íslandsmeistari, og Logi Sigurðsson, meistari 2023.
Keppendur mótsins koma úr 17 golfklúbbum víðs vegar af landinu. Golfklúbbur Reykjavíkur á flesta keppendur, alls 32, en heimamenn í Golfklúbbnum Keili eiga 21 kylfing í mótinu.
Keppendur Íslandsmótsins, niður á golfklúbb:
Klúbbur | Karlar | Konur | Samtals |
GA | 6 | 3 | 9 |
GBO | 2 | 0 | 2 |
GBR | 1 | 0 | 1 |
GFB | 1 | 0 | 1 |
GK | 13 | 8 | 21 |
GKG | 15 | 11 | 26 |
GM | 7 | 8 | 15 |
GO | 0 | 1 | 1 |
GOS | 6 | 3 | 9 |
GR | 21 | 11 | 32 |
GS | 4 | 1 | 5 |
GSE | 0 | 1 | 1 |
GSS | 0 | 2 | 2 |
GÚ | 1 | 0 | 1 |
GV | 3 | 0 | 3 |
GVS | 1 | 0 | 1 |
NK | 4 | 0 | 4 |