Frétt af heimasíðu GR.
Þá er komið að skemmtilegasta bréfi ársins kæru félagar – tilkynningu um opnun valla Golfklúbbs Reykjavíkur. Á laugardaginn var vel heppnaður vinnudagur á Korpunni, nokkrir góðir félagar mættu til að leggja hönd á plóg og undirbúa völlinn fyrir opnun. Það hefði verið gott að sjá fleiri mæta en vonandi verður mæting góð á hreinsunardaginn sem verður á miðvikudaginn. Vinnudagurinn var vel skipulagður og gengu félagar í mörg þörf verkefni fyrir sumarið. Stígar voru hreinsaðir og efni bætt í þá eftir þörfum, glompur rakaðar og snyrtar og ýmislegt fleira sem fegrar og bætir vellina okkar.
En að aðalatriðinu, Korpan (Sjórinn og Áin) verður opnuð fimmtudag 5. maí með opnunarmóti. Það er auðvitað frídagur og tilvalið til þess að hefja golfsumarið með formlegum hætti. Opnun golfvallanna okkar á vorin er hátíð, því ætlum við að gera okkur dagamun á fimmtudaginn. Öllum GR-ingum, hvort sem þeir ætli að vera með í mótinu eða ekki, er boðið í morgunmat í samstarfi við Eimskip. Boðið verður upp á kjarngóða máltíð þar sem uppistaða veiganna verður úr dýraríkinu. Ég hvet alla sem eiga heimangengt til þess að kíkja í heimsókn, dást að vellinum og gæða sér á staðgóðum morgunverði á meðan að birgðir endast.
Eins og venja er verður völlurinn opnaður með golfmóti. Rástímar verða frá kl. 8 um morguninn og hefst skráning í mótið þriðjudaginn 3. maí kl.10:00 á www.golf.is. Í fyrstu þremur hollunum mun ungt afreksfólk í klúbbnum spila með félagsmönnum. Þið sem viljið tryggja ykkur sæti með þessum hágæða kylfingum verðið því að vera snögg að bóka rástímana.
Landið verður svo opnað á laugardaginn 7. maí og verður Korpan þá komin í fulla notkun. Allar þrjár lykkjurnar koma ljómandi vel undan vetri, flatir eru mjög góðar fyrir árstíma og nú þegar rigningin blessar okkur með langþráðri vætu er líklegt að græni liturinn verði orðinn allsráðandi þegar fyrstu höggin verða slegin á fimmtudag.
Stefnt er að opnun Grafarholtsvallar laugardaginn 14. maí. Sú dagssetning er þó sett fram með fyrirvara eins og alltaf er. Holtið kemur einnig ljómandi vel undan. Allar flatir vallarins eru í betra ástandi en síðasta vor, en auðvitað er Holtið lengur í gang enda hefur síðasti snjóskaflinn ekki enn vikið inn í dal á 7. braut. Það er þó full ástæða til bjartsýni, Grafarholtið mun verða í miklu stuði þegar golfsumarið nær hámarki.
Við í stjórn GR hlökkum til að sjá ykkur sem flest á fimmtudaginn, hvort sem þið ætlið að spila golf eða ekki, og fagna með okkur sumarkomunni og opnun Korpunnar.
Gleðilegt golfsumar,
Björn Víglundsson
Formaður Golfklúbbs Reykjavíkur