Íslandsmótið í golfi 2025 fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis dagana 7.-10. ágúst.
Mikil spenna er fyrir mótinu, en þangað mæta bestu kylfingar landsins og leika um Íslandsmeistaratitilinn. Rástímar fyrstu tveggja keppnisdaganna hafa verið birtir, en eftir það verður raðað eftir skori. Fyrsta holl mótsins hefur leik kl. 07:00 á fimmtudaginn. Þar eru Henning Darri Þórðarson, GK, Sverrir Haraldsson, GM, og Björn Viktor Viktorsson, GR. Ræst er með 11 mínútna millibili og hefur síðasta holl leik kl. 15:37.
Forgjafarlægsta holl karlaflokksins hefur leik kl. 09:23 á fimmtudaginn. Þar eru Aron Snær Júlíusson, ríkjandi Íslandsmeistari, Tómas Eiríksson Hjaltested, efsti maður stigalistans, og Axel Bóasson, þrefaldur Íslandsmeistari.
Forgjafarlægsta holl kvennaflokksins er ræst út næst á eftir karlahollinu. Í því leika Guðrún Brá Björgvinsdóttir, þrefaldur Íslandsmeistari, Heiðrún Anna Hlynsdóttir, sem er efst á stigalistanum, og Hulda Clara Gestsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari.
Það verður gaman að fylgjast með þessum hollum, sem og öðrum, í mótinu. Allt stefnir í frábæra daga á Hvaleyrarvelli, en hægt verður að fylgjast með síðustu þremur keppnisdögunum í beinni útsendingu RÚV. Einnig verður vel hugsað um áhorfendur á svæðinu, og boðið upp á mikið af nýjungum fyrir þá sem leggja sér leið á svæðið.