Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hafnaði í 2. sæti á Swedish Strokeplay Championship mótinu sem lauk í dag. Mótið er hluti af LET Access mótaröðinni, sem er sú næststerkasta á meðal atvinnukylfinga í Evrópu.
Hægt er að skoða skor mótsins hér
Leikið var á Golf Uppsala Soderby golfvellinum í Svíþjóð, og var verðlaunafé mótsins um 6.5 milljónir króna. Með árangrinum vann Ragnhildur sér inn 4.770 evrur, eða um 680 þúsund krónur.
Hún hefur með þessu jafnað besta árangur íslensks kylfings á mótaröðinni frá upphafi, en Valdís Þóra Jónsdóttir á einnig best 2. sætið.
Ragga byrjaði mótið vel, lék fyrsta hringinn á 71 höggi, tveimur undir pari vallarins. Hún hitti fimmtán grín á hringnum, fékk fjóra fugla og kom sér í góða stöðu.

Annan hringinn lék Ragga á tveimur yfir pari. Aðstæður reyndust kylfingum erfiðar þann daginn, og var meðalskorið töluvert síðra en aðra keppnisdaga. Hún hitti tólf grín og fékk fimm fugla, en holur sjö og níu reyndust dýrar.

Síðasta hring mótsins lék Ragga á 68 höggum, fimm undir pari. Hún lék best allra kylfinga og kórónaði þennan glæsilega hring með löngu arnarpútti á átjándu flötinni.
Andrea Bergsdóttir lék einnig í mótinu. Hún spilaði flott golf og hafnaði í 20. sæti eftir hringi upp á 71-77-73.
Bæði Andrea og Ragga eru nú í frábærum málum á stigalistanum eftir góða spilamennsku í sumar. Andrea situr í 10. sæti stigalistans, en Ragga flaug upp í 13. sætið með árangrinum. Efstu sjö kylfingarnir í lok tímabilsins fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni á næsta tímabili, og var þetta skref í rétta átt.