Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur og ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, er jöfn í 20. sæti lokaúrtökumóts LET mótaraðarinnar fyrir lokahring mótsins. Alls eru 155 kylfingar frá 40 þjóðum skráðir til leiks í lokamótinu sem leikið er á tveimur völlum; Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech í Marokkó.
Ásamt Guðrúnu eru þær Ragnhildur Kristinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir allar á meðal keppenda mótsins.
Til mikils er að vinna, en LET mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu, og sú næst sterkasta í heimi.
- Efstu 20 kylfingar mótsins fá fullan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
- Kylfingarnir í sætum 21-50 fá skilyrtan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
- Allir kylfingar sem náðu inn í lokamótið fá takmarkaðan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
Guðrún hefur leikið fyrstu þrjá hringi mótsins á sjö höggum undir pari. Eftir frábæran fyrsta hring, þar sem hún lék á fimm höggum undir pari, hefur Íslandsmeistarinn haldið góðum dampi og er í kjörstöðu fyrir lokahringinn. Hún leikur á Royal Golf Marrakech vellinum í dag, sem hefur almennt reynst keppendum erfiðari en Al Maaden.

Ragnhildur er jöfn í 68. sætinu á einu höggi undir pari. Hún lék fyrstu tvo hringi sína á pari vallarins og þann þriðja á einu höggi undir pari. Ragga er með fimmtán fugla á fyrstu þremur hringjunum og til alls líkleg á lokasprettinum.
Andrea Bergsdóttir er jöfn í 107. sætinu á þremur höggum yfir pari og Hulda Clara Gestsdóttir er í 149. sæti á ellefu höggum yfir pari.

