Golfsamband Íslands

Landsliðskylfingarnir rifjuðu upp gamla takta í fótboltagolfi í Skemmtigarðinum

Efri röð frá vinstri: Hlynur Bergsson, Tumi Hrafn Kúld, Gísli Sveinbergsson, Fannar Ingi Steingrímsson, Björn Óskar Guðjónsson, Andri Þór Björnsson. Neðri röð frá vinstri: Rúnar Arnórsson, Axel Bóasson, Henning Þórðarson og Kristján Þór Einarsson.

Karla – og piltalandslið Íslands hafa æft af krafti á undanförnum dögum og lagt lokahöndina á undirbúninginn fyrir Evrópumótin sem hefjast 7. og 8. júlí. Liðin æfðu í Básum og Grafarkotsvelli í vikunni og fóru einnig í fótboltagolf til þess að brjóta upp æfingamynstrið. Á nýjum fótboltagolfvelli í Skemmtigarðinum í Grafarvogi sýndu landsliðskylfingarnir gamla fótboltatakta en þeir voru margir hverjir í fremstu röð í knattspyrnu áður en þeir völdu golfíþróttina.

Karlalandsliðið keppir í 2. deild á Postolowo golfvellinum í Póllandi. Völlurinn er næst lengsti völlur Evrópu, alls 7101 metri.  Mótið fer fram 8.-11. júlí. Í mótinu keppa tíu þjóðir, en þrjár efstu komast í 1. deildar keppnina á næsta ári. Leiknar eru 36 holur í höggleik og munu fjórar efstu þjóðirnar leika holukeppni, þjóð gegn þjóð, tvær umferðir á hverjum degi, fjórir fjórmenningar fyrir hádegi og fimm tvímenningar eftir hádegi.

Karlalandsliðið er þannig skipað:
Andri Þór Björnsson (GR), Axel Bóasson (GK), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR), Kristján Þór Einarsson (GM), Rúnar Arnórsson (GK). Þjálfari: Birgir Leifur Hafþórsson. Liðsstjóri/sjúkraþjálfari: Gauti Grétarsson.

Piltalandsliðið keppir á Pickala Park Course golfvellinum í Finnlandi. Völlurinn er skógarvöllur,  6651 metri að lengd.  Mótið fer fram 7.-11. júlí. Í mótinu fá 16 þjóðir þátttökurétt, en eftir 36 holu höggleik leika átta efstu í A riðli og 8 þjóðir í B riðli. Þar eftir verður leikin holukeppni, þjóð gegn þjóð.  Í A riðli eru leiknar tvær umferðir á  dag, fjórir fjórmenningar fyrir hádegi og fimm tvímenningar eftir hádegi. Í B riðli er leikin ein umferð daglega, einn fjórmenningur og fjórir tvímenningar. Þrettán efstu þjóðirnar tryggja sér þátttökurétt í mótinu á næsta ári, en þrjár neðstu þurfa að fara í 2. deild og leika í undankeppni til að komast aftur upp.

U18 piltalandsliðið er þannig skipað:
Fannar Ingi Steingrímsson (GHG), Gísli Sveinbergsson (GK), Björn Óskar Guðjónsson (GM), Henning Darri Þórðarson (GK), Tumi Hrafn Kúld (GA), Hlynur Bergsson (GKG). Þjálfari: Úlfar Jónsson. Liðsstjóri: Ragnar Ólafsson.

Efri röð frá vinstri: Hlynur Bergsson, Tumi Hrafn Kúld, Gísli Sveinbergsson, Fannar Ingi Steingrímsson, Björn Óskar Guðjónsson, Andri Þór Björnsson. Neðri röð frá vinstri: Rúnar Arnórsson, Axel Bóasson, Henning Þórðarson og Kristján Þór Einarsson.

 

Exit mobile version