Íslenski áhugakylfingurinn Jóhann Frank Halldórsson, GR, lék í lokaúrtökumóti Nordic Golf League sem fram fór dagana 7.-8. október.
Jóhann var eini íslenski keppandinn sem komst í lokamótið, eftir góðan árangur á 1. stigi úrtökumótsins í Danmörku. Alls reyndu sex íslenskir kylfingar fyrir sér á 1. stiginu.
Leikið var á Ljunghusens golfvellinum í Svíþjóð og höfðu 90 kylfingar unnið sér inn þátttökurétt í mótinu. Allir þeir sem komust inn á lokamótið geta leikið á Nordic League mótaröðinni á næsta tímabili. Efstu 25 kylfingar mótsins fá fullan þátttökurétt í mótaröðina á meðan aðrir eru settir í lægri styrkleikaflokk.

Jóhann lék hringina tvo á 77-81 höggi og endaði jafn í 87. sæti mótsins. Með árangrinum endar Jóhann í styrkleikaflokki 12 á næsta tímabili og hefur því möguleikann á að leika í mörgum atvinnumannamótum næsta sumar.
Nordic Golf League atvinnumótaröðin er sú þriðja sterkasta í Evrópu í karlaflokki.
Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og m.a. opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (HotelPlanner Tour). Hlynur Bergsson, sem lék í úrtökumóti Nordic Golf League í fyrra, vann sitt fyrsta mót á mótaröðinni í sumar.
Fimm efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á HotelPlanner Tour og þrír sigrar tryggja kylfingum einnig keppnisrétt.