Site icon Golfsamband Íslands

Íslandsmót 2019: „Draumur sem rættist“ – Ólafur Björn rifjar upp lokakaflann frá árinu 2009

Ólafur Björn Loftsson lýsir mögnuðum lokakafla Íslandsmótsins 2009 

Lokakafli Íslandsmótsins 2009 í Grafarholti í karlaflokki var einn sá eftirminnilegasti frá upphafi. GR-ingurinn Stefán Már Stefánsson og Ólafur Björn Loftsson sem þá lék fyrir Nesklúbbinn börðust um sigurinn og úrslitin réðust í þriggja holu umspili. Á lokahringnum var allt í járnum hjá þeim félögum en Ólafur og Stefán lýstu lokakeppnisdeginum með skemmtilegum hætti í þættinum Íþróttafólkið okkar á RÚV nýverið. Hér á eftir fer lausleg samantekt á þeirra lýsingu á lokadeginum. Myndirnar tók Frosti Eiðsson.


Stefán átti eitt högg á Ólaf Björn þegar þeir hófu leik á lokahringnum í Grafarholtinu. Þeir byrjuðu báðir með því að fá fugl á 1. holuna. 

Ólafur: „Það var mikið af pörum hjá okkur á fyrstu 11 holunum en ég var 1 höggi á eftir Stefáni fram að 12. holunni. Ég tapaði síðan tveimur höggum á 12. braut. Það var blanda af klaufaskap og óheppni. Stefán fékk fugl á 12. braut og ég var skyndilega 5 höggum á eftir.“

Ólafur: „Ég var samt vongóður þrátt fyrir muninn. Ég ræddi mikið við pabba, Loft Ólafsson, sem var kylfusveinn og aðstoðarmaður minn í þessu móti. Hann hafði sjálfur verið í þessari stöðu 37 árum áður. Fjórum höggum á eftir Björgvini Þorsteinssyni þegar fjórar holur voru eftir. Og mótið fór fram á Grafarholtsvelli. Pabbi vann þann mun upp. Við ræddum þetta og vorum sammála að þetta gæti alveg gerst aftur. Stefán tapaði höggi á 13. og ég fékk par á 13. og 14. Fjórar holur eftir og ég var þá 4 höggum á eftir. Sóknargolf var eina leiðin til þess að saxa á forskotið. Stefán Már var að leika það vel að ég sá ekki fram á að hann myndi gera nein stór mistök. Ég fékk góðan fugl á 15. brautinni sem er par 5, púttið var gott og það gaf mér sjálfstraust. Ég fann að ég hafði engu að tapa, ég náði með aðstoð pabba að stilla spennustigið mjög vel og spila sóknargolf. Þegar ég lít til baka þá var ómetanlegt að hafa pabba með mér í þessu, hann hafði upplifað þetta áður og hafði trú á að allt gæti gerst.

Annað höggið á 16. er eitt af mínum allra bestu golfhöggum, um 170 metrar og boltinn endaði rétt við holuna. Ég fékk fugl. Sóknargolfið hélt áfram á 17. teig þar sem ég sló með 4-járni rétt við stöngina, fuglafæri sem ég nýtti og það munaði aðeins einu höggi þegar við stóðum á teig á 72. holu.“ 

Ólafur Björn og Stefán Már komu sér báðir inn á 18. flöt í öðru höggi. Stefán Már var í 4–5 

metra fjarlægð á efri pallinum en Ólafur Björn var í 8–9 metra fjarlægð á neðri pallinum. 

Ólafur: „Þetta var pútt sem ég vissi að ég þyrfti að setja ofan í. Ég hafði undirbúið mig vel fyrir mótið og púttað oft á þessum stað því ég vissi að pinninn yrði á þessum stað á lokahringnum. Ég þekkti línuna og hafði trú á því að koma boltanum ofan í. Hraðinn þurfti bara að vera réttur. Þá ætti boltinn möguleika á að fara ofan í. Það var dásamlegt að sjá boltann detta og ég fagnaði þvílíkt. Spennufallið var mikið og þegar Stefán Már rétt missti fuglapúttið fyrir sigrinum þá tók við næsta verkefni.“

Stefán Már og Ólafur Björn fengu það verkefni að leika þriggja holu umspil um Íslandsmeistaratitilinn. Holur 10, 17 og 18 urðu fyrir valinu. 

Ólafur: „Ég sló ekki gott högg á 10. teig, boltinn endaði í karga utan brautar vinstra megin. Ég átti um 150 metra eftir. Þar sló ég á ný eitt af mínum betri höggum úr erfiðri stöðu. Boltinn endaði í 2 metra fjarlægð frá holunni. Fuglapúttið fór ofan í en Stefán fékk skolla og það var því tveggja högga munur á okkur á 17. teig. Á þeim tíma valdi ég að verja stöðuna og tók 5-járn af 17. teig til þess eins að drífa ekki í hætturnar við flötina. Boltinn endaði fyrir framan flötina, ég vippaði að og fékk par. Tveggja högga forskot á 18. teig og ég hugsaði bara um að klára þetta. Þegar ég lít til baka þá eru þetta augnablikin sem ég hafði stefnt að frá unga aldri, látið mig dreyma um að landa titlum og þessi lokakafli var svo sannarlega draumi líkastur. Sérstaklega að upplifa þetta með föður mínum sem hafði gert þetta 37 árum áður á sama velli.“ 


Exit mobile version