GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

bætt lega
Auglýsing

Það er grundvallaratriði golfleiksins að “leika völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggur”, eins og segir í 1. reglu leiksins. Þegar bolti þinn stöðvast, þá þarftu að sætta þig við þær aðstæður sem þar eru og hafa áhrif á næsta högg og mátt ekki bæta þær áður en þú leikur boltanum. Hér á árum áður voru færslur leyfðar með staðarreglu tímabundið á vorin eða lengur tilteknum svæðum golfvalla. Á síðustu 10 árum hefur aukist til muna að færslur séu leyfðar allt sumarið á öllum brautum vallar. Það kallast bætt lega á snöggslegnu svæði.

Af hverju hefur þessi staðarregla farið eins og eldur í sinu um alla golfvelli landsins? Eru gæði brauta verri en þau voru fyrir 10 árum? Hvaðan koma kröfurnar um að ekki sé hægt að leika golf á Íslandi nema leyfð sé bætt lega?

Til að geta svarað þessum spurningum þurfum við að skoða nokkur atriði. Þessi regla er í sjálfu sér góð lausn þegar óviðeigandi aðstæður eru á brautum, en samkvæmt golfreglum eru þær einungis ætlaðar tímabundið þegar veður og vallaraðstæður krefjast þess. Ef við skoðum staðarreglur golfklúbba í dag þá sjáum við, með fáum undantekningum, að færslur eru leyfðar á öllum brautum. Ekki er hægt að segja að umhirðu og gæðum golfvalla hafi farið aftur á síðustu árum. Þvert á móti hafa íslenskir golfvellir tekið miklum framförum.

En hefur þetta einhver áhrif? Já, kylfingur getur með þessari reglu bætt legu sína oftar en 15 sinnum þegar hann leikur 18 holu hring og annað eins á flötum. Þetta þýðir að kylfingur snertir og bætir legu bolta yfir 30 sinnum. Ekki er hægt að segja að þessi regla flýti leik né geri kylfinga betri í að leika völlinn eins og hann kemur fyrir. Þess má geta að það að bæta legu boltans, hreinsa hann og fleira telst hluti af þeim 40 sekúndum sem kylfingar hafa þegar komið er að því að leika boltanum.

Í vallarmati, þegar metið er hversu erfiður golfvöllur er til leiks, er einn þátturinn að athuga hversu erfið staða kylfings og lega bolta sé út frá halla og ástandi yfirborðs brauta. Það að gefa kylfingum allt golftímabilið bætta legu þýðir að þessi þáttur vallarmatsins er í raun að mestu tekinn úr sambandi.

Golfíþróttin nýtur mikilla vinsælda og fleiri kylfingar leika golf en nokkru sinni fyrr. Með þessari jákvæðu þróun þarf um leið að hlúa að menningu íþróttarinnar með því að leika golf eftir alþjóðlegum reglum leiksins.

Við viljum öll sjá golfvelli og kylfinga vaxa og dafna. Til þess þurfum við að standa saman og leyfa ekki færslur nema aðstæður krefjist þess í raun og veru. Þessi hugarfarsbreyting væri stórt skref fram á við fyrir íslenskt golf.

Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum!

Til glöggvunar, ekki bæta:
● Legu boltans,
● Svæðið þar sem þú tekur þér stöðu,
● Svæðið sem hefur áhrif á sveiflusviðið,
● Leiklínuna, eða
● Lausnarsvæðið þar sem þú munt láta bolta falla eða leggja hann

með því að færa, beygja eða brjóta nokkuð sem:
● Grær eða er fastur nátturulegur hlutur,
● Er óhreyfanleg hindrun,
● Er hluti vallar, eða
● Er vallarmarkahluti.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ