Þing Golfsambands Íslands fór fram dagana 14.-15 nóvember 2025. Hulda Bjarnadóttir var þar endurkjörin sem forseti sambandsins til næstu tveggja ára.
Þingið hófst á föstudag með málþingi þar sem stefnumótun og framtíðarsýn golfhreyfingarinnar til ársins 2030 var kynnt. Mikil vinna hefur farið fram undanfarið ár og í ljósi áframhaldandi fjölgunar var ákveðið að skýra markmið og lykiláherslur.
Ný stefna til 2030 kynnt á Golfþingi 2025
“Starfsárið 2025 hefur verið ár framfara og nýsköpunar innan Golfsambands Íslands. Stefnan sem við kynnum ykkur til ársins 2030 byggir á sterkri sýn um að koma stórum verkefnum í framkvæmd. Golfmiðstöðin, sem mun henta alþjóðlegu keppnishaldi og leysa ákveðinn vanda fyrir afrekshluta sambandsins, gerist ekki nema í samstarfi við Íþróttasamband Íslands, sveitafélög og ríki. Við erum í minnsta undirbúin og til í framhalds samtöl. Þessi stefna undirstrikar ekki síður þörfina á aðstöðuleysi á höfuðborgarsvæðinu,” sagði Hulda Bjarnadóttir forseti Golfsambands Íslands er hún ávarpaði þingfulltrúa.

Danska leiðin kynnt og nýr golfklúbbur tekinn inn
Gestir fengu einnig einnig innsýn í „dönsku leiðina“ frá Morten Backhausen, framkvæmdastjóra danska golfsambandsins. Danir hafa verið afar farsælir í afreksstarfi sambandsins og undanfarin ár hafa þeir byggt upp fjölda kylfinga í fremstu röð, bæði í karla og kvennaflokki.
Hefðbundin þingstörf fóru fram á laugardeginum. Í upphafi dagskrár var nýjasti golfklúbburinn innan raða Golfsambands Íslands boðinn velkominn, en þar með eru golfklúbbarnir samtals 63. Formaður klúbbsins Ragnheiður K. Guðmundsdóttir ávarpaði þingfulltrúa og sagðist spennt fyrir framhaldinu.
Meðal dagskrárliða voru einnig kynning á framtíðarsýn Golfklúbbs Akureyrar, kynning VSB á hugmynd GSÍ um þjóðarleikvang og afreksmiðstöð golfhreyfingarinnar. Erindið um hagræn áhrif íþróttarinnar flutti Arnar Geirsson, þjónustustjóri GSÍ en greiningin var unnin í samstarfi við KPMG.
Hafrúnu Kristjánsdóttur Phd frá Háskólanum í Reykjavík, hélt erindi um mikilvægi íþróttastarfs. Þar kynnti hún niðurtstöður íslenskra og erlendra rannsókna sem sýna skýrt framlag íþrótta til lýðheilsu og forvarna.

Ný stjórn
Í lok dags fór fram stjórnarkjör Golfsambands Íslands. Þingfulltrúar kusu nýja stjórn, endurskoðendur og fulltrúa í helstu nefndir sambandsins, þar á meðal aganefnd, dómaranefnd og forgjafar- og vallarmatsnefnd. Þá var kjörnefnd skipuð og fulltrúar valdir á íþróttaþing ÍSÍ.
Hulda Bjarnadóttir var endurkjörin sem forseti Golfsambands Íslands til næstu tveggja ár. Hansína Þorkelsdóttir og Elín Hrönn Ólafsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og koma Gunnar Sveinn Magnússon, GR og Írunn Ketilsdóttir, GM inn í stjórn GSÍ í þeirra stað.
Stjórn GSÍ 2025-2027 er þannig skipuð: Birgir Leifur Hafþórsson, Gunnar Sveinn Magnússon, Hjördís Björnsdóttir, Írunn Ketilsdóttir, Jón B. Stefánsson, Jón Steindór Árnason, Karen Sævarsdóttir, Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, Ólafur Arnarson og Ragnar Baldursson.




