Site icon Golfsamband Íslands

Hugleiðing frá formanni Golfklúbbs Akureyrar

Frá Jaðarsvelli á Akureyri.

Frétt af heimasíðu Golfklúbbs Akureyrar – hugleiðing frá Sigmundi Ófeigssyni formanni GA:

Mikið og öflugt starf hefur verið í vetur hjá GA og hafa starfsmenn GA ekki slegið slöku við. Ágúst framkvæmdastjóri og hans lið hefur lagt mikið á sig við að veita klúbbmeðlimum aukna þjónustu bæði niður í Golfhöll og einnig hefur mikið starf verið unnið að Jaðri.

Að Jaðri hafa verið stór og mikil verkefni í gangi jafnt innan sem utan húss. Þessi verkefni hófust strax á haustmánuðum. Þar má helst telja endurbætur á eldhúsi, veislusalurinn var allur tekinn í gegn, parketlagður og málaður og nú er verið að taka kjallarann algerlega í gegn þar sem snyrtingar verða allar endurnýjaðar, innréttaðir búningsklefar og öll hæðin endurskipulögð.

Það er mitt mat að eftir þessar breytingar eigum við einn fallegasta og besta golfskála landsins. Á vormánuðum er svo hugmyndin að laga skálann að utan. Þakið verður málað og þakskegg lagað auk þess sem til stendur að helluleggja stóran hluta af nánasta umhverfi hans.

Til að geta farið í framkvæmdir sem þessar hefur mikið og öflugt sjálboðastarf verið unnið af frábærum félögum í GA. Auk þess hafa sterkir bakhjarlar klúbbsins stutt félagið dyggilega við bakið á okkur með efnisframlögum sem og styrkjum. Þar má helst að nefna, Steypustöðina, Húsasmiðjuna, Tengi og Álfaborg, auk margra minni fyrirtækja sem vilja standa með GA.

Þetta eru ekki einu framkvæmdirnar sem eru í gangi að Jaðri því við erfiðar aðstæður í allan vetur hefur uppbygging Klappa verið á fullu þrátt fyrir einn erfiðasta vetur sem við höfum fengið í mörg ár m.t.t. að steypa upp hús og hafa því orðið nokkrar tafir á verkinu.

Nú er farið að sjá fyrir endann á uppbyggingunni og gerum ráð fyrir að steypa efri plötuna kringum sumardaginn fyrsta eða um 20. apríl. Þarna hafa starfsmenn GA sem og starfsmenn fyrirtækisins Lækjarsels keyrt verkið áfram og séð um uppsteypuna.

Auk þessa ofantalinna verka hafa starfsmenn GA verið að vakta völlinn og ýmist blásið snjó af flötum ásamt því að bræða og brjóta klaka og hafa þær aðgerðir tekist vel. Þarna hafa þeir Steindór, Biggi og Gussi verið vakandi fyrir því hvað sé best að gera hverju sinni.

Nú stefnir í það að neðri hæðin að Jaðri verði kláruð um miðjan apríl, hellulögn vonandi lokið í maí og við gerum ráð fyrir því að Klappir verði hæfar til notkunar í maílok.

Þetta eru stór verk og þeirri ótrúlegu uppbyggingu sem hófst fyrir rúmum 10 árum þá nærri lokið.

Enn er ekki allt upp talið því Ágúst og Sturla golfkennari GA hafa sinnt Golfhöllinni með miklum sóma í vetur. Aðsókn fór rólega af stað í haust, en eftir áramót varð alger sprenging í aðsókn og varð ástandið þannig að færri komust að en vildu í Trackman golfherminn. Var þá brugðið á það ráð að leita til GA félaga og selja fyrirfram greidd kort í golfhermana og freista þess að fjármagna annan Trackman á þann hátt, þ.e. án þess að GA legði út fjármuni. Það stóð ekki á viðbrögðum okkar félaga og eru nú tveir Trackman golfhermar í golfhöllinni nánast full bókaðir alla daga. GA státar nú af einni bestu inniaðstöðu landsins með tvo af fullkomnustu golfhermum og golfgreiningatækjum landsins.

Mikil aðsókn er í golfhöllina, Sturla er með tugi tíma á viku fyrir unglinga GA, hann er með marga GA félaga í kennslu og svo koma margir til að æfa sig og bæði slá í net og pútta. Heldri borgarar Akureyrar hafa svo komið einu sinni í viku (þrír hópar, um 40 manns) og pútta á púttvellinum. Það má því með sanni segja að allaf sé iðandi líf Golfhöllinni og alltaf gaman að kíkja þar við. Þessi góða inniaðstaða gerir það að verkum að GA er heilsársklúbbur og mikil starfsemi í gangi allt árið.

Þegar þetta er lesið sést hve gríðarleg umsvif okkar starfsfólk hefur haft með höndum þennan veturinn og á það heiður skilið fyrir árangurinn og þá jákvæðni sem þau byggja upp í klúbbnum.

Sigmundur Ófeigsson
Formaður GA

Exit mobile version