Site icon Golfsamband Íslands

Haraldur Franklín keppir á úrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið

Haraldur Franklín Magnús. Mynd/seth@golf.is

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, verður á meðal keppenda á úrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið. Úrtökumótið sem Haraldur Franklín keppir á fer fram á Century Country Club og Old Oaks Country Club völlunum í Purchase, N.Y. þann 6. júní.

Alls er keppt á 11 mismunandi keppnisstöðum þann 6. júní, á átta stöðum í Bandaríkjunum, einum í Kanada og einnig í Japan. Leiknar verða 36 holur á einum keppnisdegi. Fjöldi þeirra sem komast áfram inn á risamótið af hverjum velli fyrir sig ræðst af fjölda keppenda á hverjum velli og styrkleika hvers móts.

Nánar um lokaúrtökumótið hér:

Á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Opna bandaríska meistaramótið 2022 var leikið á 110 völlum og tóku rétt um 9000 keppendur þátt. Alls komust 530 áfram á lokaúrtökumótið sem fram fer eins og áður segir 6. júní.

Nánar hér um fyrsta stig úrtökumótsins:

Opna bandaríska meistaramótið er eitt af fjórum risamótum ársins hjá atvinnukylfingum í karlaflokki. Risamótið fer fram dagana 16.-19. júní og fer það fram á The Country Club vellinum í Brookline, Massachusetts. Mótið í ár er það 122. í röðinni.

Haraldur Magnús náði árið 2018 að komast inn á Opna mótið á Bretlandi með því að enda í öðru sæti á úrtökumóti á Englandi. Haraldur Franklín er eini karlkylfingurinn frá Íslandi sem hefur leikið á risamóti – en hann keppti á Opna mótinu á Carnoustie vellinum í Skotlandi 19. og 20. júlí 2018. Þar lék hann á +8 samtals (72-78) komst ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum öðrum keppnisdegi sem var +3 eða betra.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa báðar keppt á risamóti á atvinnumótaröð kvenna en risamótin í kvennaflokki eru alls fimm.

Ólafur Björn Loftsson spilaði á Whyndham-meistaramótinu sem er hluti af PGA-mótaröðinni árið 2011 og var hann fyrsti íslenski kylfingurinn sem lék á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum. Haraldur Franklín er sá annar í röðinni en Opna mótið er hluti af PGA-mótaröðinni.

Exit mobile version