Íslenski atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús lék sinn fyrsta hring á Hainan Open
mótinu í Kína í dag. Mótið er eitt af lokamótum tímabilsins á HotelPlanner Tour mótaröðinni, en einungis 68 efstu kylfingar stigalistans eru á meðal keppenda.
Fyrir mótið var Haraldur í 62. sæti listans og mun hann því einnig leika í Hangzhou Open
mótinu í næstu viku. Mikið af stigum eru í boði í mótunum, en efstu 46 kylfingarnir að þeim loknum fá þátttökurétt í lokamóti mótaraðarinnar.
Hainan Open mótið er leikið á Sanya Luhuitou golfvellinum á Hainan eyjunni, sem er staðsett rétt sunnan við Kína. Völlurinn er gífurlega fallegur líkt og sjá má á mynd hér að neðan.

Nick Carlson, kylfingur GM, er með fullan keppnisrétt á mótaröðinni og er einnig á meðal keppenda mótsins. Hann situr í 29. sæti stigalistans eftir gott tímabil.
Eftir fyrsta hring er Nick jafn í 58. sæti mótsins og Haraldur í 93. sæti.
Nick fékk fjóra fugla, tvo skolla og einn tvöfaldan á fyrsta hringnum. Eftir litríkar fyrri níu holur lék hann seinni níu holurnar einn undir pari og lauk leik á 72 höggum, eða pari vallarins.

Haraldur fékk fjóra fugla og sex skolla á hringum. Hann kom í hús á 74 höggum, tveimur höggum yfir pari.
