Íslenski landsliðskylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar varð ellefti í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2025. Hann hlaut 47 stig og var einungis fjórum stigum frá því að vera á meðal tíu efstu.
Annað ár Gunnlaugs í bandaríska háskólagolfinu hefur ekki farið framhjá neinum. Gunnlaugur hefur verið á meðal efstu kylfinga í öllum mótum tímabilsins hingað til. Hann varð m.a. annar í sterku móti í Illinois í september og stóð uppi sem sigurvegari í Fallen Oak mótinu í október.
Þá hefur hann verið á góðri siglingu upp heimslista áhugakylfinga, en hann er í dag 8. besti áhugakylfingur heims.
Gunnlaugur er sá eini á meðal efstu íþróttamanna listans sem er ekki orðinn atvinnumaður í sinni grein, eða keppir ekki sem slíkur. Árangur hans hefur vakið verðskuldaða athygli og verður spennandi að fylgjast með landsliðsmanninum árið 2026.

Ragnhildur Kristinsdóttir var einnig á meðal þeirra sem fengu atkvæði í kjörinu, en hún varð jöfn í 22. sætinu.
Ragnhildur átti frábært ár á LET Access, og varð fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Hún lék gott golf á tímabilinu og var hársbreidd frá því að vinna sér inn fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni.
30 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna greiddu atkvæði að þessu sinni. Tíu þeirra vinna fyrir Sýn, átta þeirra hjá RÚV, fjórir hjá Morgunblaðinu, þrír hjá Fotbolta.net, tveir hjá 433.is, einn hjá Handbolta.is, einn hjá Símanum og einn hjá Kylfingi.is.
Á hátíðinni var kylfingum ársins veitt viðurkenning, en það voru þau Gunnlaugur Árni og Guðrún Brá Björgvinsdóttir sem hlutu nafnbótina fyrir árið 2025.
Hér má sjá úrslit kjörsins í ár:
Íþróttamaður ársins 2025
- Eygló Fanndal Sturludóttir – Lyftingar – 532 stig
- Gísli Þorgeir Kristjánsson – Handbolti – 458 stig
- Tryggvi Snær Hlinason – Körfubolti – 211 stig
- Dagur Kári Ólafsson – Fimleikar – 143 stig
- Glódís Perla Viggósdóttir – Fótbolti – 142 stig
- Hákon Arnar Haraldsson – Fótbolti – 115 stig
- Jón Þór Sigurðsson – Skotfimi – 73 stig
- Snæfríður Sól Jórunnardóttir – Sund – 65 stig
- Hildur Maja Guðmundsdóttir – Fimleikar – 59 stig
- Ómar Ingi Magnússon – Handbolti – 51 stig
- Gunnlaugur Árni Sveinsson – Golf – 47 stig
- Hanna Rún og Nikita Bazev – Dans – 42 stig
- Cecilía Rán Rúnarsdóttir – Fótbolti – 38 stig
- Albert Guðmundsson – Fótbolti – 35 stig
- Thea Imani Sturludóttir – Handbolti – 33 stig
- Viktor Gísli Hallgrímsson – Handbolti – 32 stig
- Baldvin Þór Magnússon – Frjálsíþróttir – 30 stig
- Konráð Valur Sveinsson – Hestaíþróttir – 26 stig
- Elvar Már Friðriksson – Körfubolti – 23 stig
- Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir – Skíði – 17 stig
- Elín Klara Þorkelsdóttir – Handbolti – 12 stig
Jöfn í 22. til 24. sæti
Ragnhildur Kristinsdóttir – Golf – 2 stig
Jóhann Berg Guðmundsson – Fótbolti – 2 stig
Thelma Aðalsteinsdóttir – Fimleikar – 2 stig
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er eini kylfingurinn sem hefur orðið íþróttamaður ársins.