GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Guðrún leikur á LET mótaröðinni á næsta ári
Auglýsing

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur og ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, spilaði sig inn á sterkustu mótaröð Evrópu í lokaúrtökumóti í Marokkó í dag.

Lokaúrtökumót LET mótaraðarinnar fór fram dagana 17.-20. desember á tveimur völlum; Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech í Marokkó. Alls mættu 155 kylfingar frá 40 þjóðum til leiks, en fjórir íslenskir kylfingar voru á meðal keppenda.

Ásamt Guðrúnu voru það þær Ragnhildur Kristinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir.

Ragnhildur og Andrea tryggðu sér sæti beint inn í lokaúrtökumótið með frábærum árangri á LET Access mótaröðinni í sumar, þar sem þær enduðu í áttunda og tólfta sæti stigalistans. Efstu sjö kylfingar LET Access komust beint inn á mótaröðina, en þeir sem enduðu í sætum 8-32 á stigalistanum fengu sjálfkrafa þátttökurétt í lokaúrtökumótinu.

Guðrún Brá og Hulda Clara spiluðu sig inn í lokamótið í úrtökumóti sem fór fram í Marrakesh í síðustu viku. Þar var keppt á fjórum mismunandi völlum og 90 kylfingar tryggðu sig inn á lokamótið.

Guðrún Brá átti þar frábært mót. Hún lék besta hring mótsins, staða hennar var aldrei í hættu og endaði Íslandsmeistarinn í þriðja sæti, en efstu tuttugu kylfingarnir komust áfram.

Guðrún nýtti sér meðbyr fyrra úrtökumótsins og hélt áfram öflugri spilamennsku í lokaúrtökumótinu. Að fyrsta hring loknum var hún jöfn í efsta sæti mótsins. Hún lék Al Maaden völlinn á fimm höggum undir pari, fékk sjö fugla og tvöfaldan skolla á síðustu holunni.

Guðrún var jöfn á toppnum eftir fyrsta hring

Næstu hringi lék hún áfram af miklu öryggi, tapaði fáum höggum og hélt sér á meðal efstu kylfinga. Fyrir lokahringinn sat hún jöfn í 20. sætinu á sjö höggum undir pari. Þá var komið að því að leika Royal Golf völlinn, sem reyndist mörgum kylfingum erfiður í mótinu.

Royal Golf Marrakech

Þrír fuglar og tveir skollar í dag komu Guðrúnu í átta högg undir par í heildina, og 24. sæti mótsins raunin. Með árangrinum vinnur hún sér inn CAT 16 þátttökurétt í mótaröðinni á næsta ári, sem þýðir að Guðrún fái tækifæri til að taka þátt í mörgum mótum á tímabilinu. Reiknað er með að hún geti leikið í u.þ.b. 15 af 28 mótum tímabilsins, og á þann möguleika að vinna sér inn fullan þátttökurétt með góðum árangri snemma á tímabilinu.

Frábær árangur hjá Íslandsmeistaranum, við óskum henni til hamingju með afrekið.

Hér má sjá úrslit mótsins

LET mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu, og sú næst sterkasta í heimi. Í móti vikunnar hlutu:

  • Efstu 20 kylfingar mótsins fullan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
  • Kylfingarnir í sætum 21-50 skilyrtan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
  • Allir kylfingar sem náðu inn í lokamótið fá takmarkaðan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.

Ragnhildur endaði jöfn í 66. sætinu á tveimur höggum undir pari. Hún lék fyrstu tvo hringi sína á pari vallarins og seinni tvo hringina báða á einu höggi undir pari.

Andrea Bergsdóttir endaði jöfn í 127. sætinu á sjö höggum yfir pari og Hulda Clara Gestsdóttir varð jöfn í 150. sætinu á fimmtán höggum yfir pari.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ