GSÍ fjölskyldan
Auglýsing

Íslensku atvinnukylfingarnir Hulda Clara Gestsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir eru báðar á leið í lokaúrtökumót LET mótaraðarinnar (Ladies European Tour) eftir góða frammistöðu í Marokkó á dögunum. Fjórir íslenskir kylfingar verða því í lokaúrtökumótinu, en Andrea Bergsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir höfðu þegar unnið sér inn þátttökurétt.

Fjögur úrtökumót fóru fram á golfvöllum víðsvegar um Marrakesh; Fairmont Royal Palm Golf & Country Club, Noria Golf Club, PalmGolf Marrakech Ourika og Samanah Golf by Nicklaus héldu hver sitt mótið. Efstu kylfingarnir á hverjum velli unnu sér inn þátttökurétt í lokaúrtökumótið sem fer fram 16.-20. desember á Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech.

Guðrún Brá lék úrtökumót sitt á Samanah Golf by Nicklaus vellinum. Þangað mættu 63 kylfingar og léku um 21 laust sæti í lokamótinu. Guðrún lék fyrsta hringinn á tveimur höggum yfir pari og kom sér fyrir í sautjánda sæti mótsins. Annan hringinn lék hún á 66 höggum, sex undir pari, sem reyndist besti hringur mótsins. Þessi frábæri hringur samanstóð af sjö fuglum, einum skolla og kom Íslandsmeistaranum í annað sætið fyrir lokahringinn. Þann hring lék hún á höggi undir pari og hafnaði í þriðja sæti mótsins.

Hér má sjá úrslit mótsins

Fyrsti hringur Guðrúnar
Annar hringur Guðrúnar
Þriðji hringur Guðrúnar

Hulda Clara lék á Noria Golf Club vellinum. Þangað mættu 62 kylfingar og léku um 21 laust sæti í lokamótinu. Þetta var fyrsta mót Huldu Clöru á vegum LET, en hún gerðist atvinnukylfingur í haust.

Hulda lék fyrsta hringinn á einu höggi undir pari og var jöfn í fimmta sæti mótsins. Eftir annan hringinn var hún jöfn í sjöunda sæti og í góðri stöðu fyrir lokahringinn.

Síðasti hringurinn reyndist erfiður á köflum, en Hulda var sex yfir pari eftir þrettán holur og ekki lengur í öruggu sæti. Holur fjórtán og fimmtán lék hún frábærlega, fékk þar fugl og örn og kom sér aftur réttu megin við niðurskurðarlínuna. Hulda endaði mótið í sextánda sæti og verður því einnig á meðal keppenda í lokaúrtökumótinu sem hefst á morgun.

Fyrsti hringur Huldu
Annar hringur Huldu
Þriðji hringur Huldu

Hér má sjá úrslit mótsins

155 kylfingar frá 40 löndum verða á meðal keppenda í lokaúrtökumótinu. Þar verður leikinn 90 holu höggleikur um laus sæti á sterkustu mótaröð Evrópu. Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á golf.is og öðrum miðlum GSÍ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ