Auglýsing

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr GK, hefur í nógu að snúast í keppnisgolfinu á næstu dögum.

Hún keppir á tveimur mótum á næstu fjórum dögum en mótin fara bæði fram á Naxhelet vellinum í Belgíu.

Fyrra mótið er á LET Evrópumótaröðinni og á mánudaginn tekur hún þátt á úrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið, US Open.

Opna bandaríska meistararmótið, US Open, fer fram dagana 5.-9. júlí á hinum þekkta Pebble Beach velli. Mótið er það 78. í röðinni en þetta er í fyrsta sinn sem mótið fer fram á þessum velli.

Úrtökumótið er leikið á einum degi þar sem að keppendur leika tvo 18 holu hringi á einum degi – alls 36 holur.

Í fyrra fór þetta úrtökumót fram á Englandi og þar komust þrír efstu keppendurnir inn á risamótið. Það má gera ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi á úrtökumótinu í Belgíu.

Alls eru haldin 26 úrtökumót víðsvegar um veröldina fyrir þetta risamót. Í Bandaríkjunum fara fram 23 úrtökumót, einnig verða mót í Kanada, Japan og Belgíu.

Alls verða 2107 keppendur samtals sem reyna fyrir sér á úrtökumótunum í ár fyrir Opna bandaríska meistaramótið en í fyrra tóku 1.873 keppendur þátt. Árið í ár er því það stærsta frá upphafi hvað varðar aðsókn í úrtökumótin.

Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru einu íslensku konurnar sem hafa leikið á Opna bandaríska meistaramótinu.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ