Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili, endaði jöfn í 44. sæti á KPMG Women’s Irish Open mótinu sem fram fór dagana 3.-6. júlí.
Mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna (Ladies European Tour), en þetta er sjöunda mót hennar á tímabilinu.
Leiknir voru fjórir hringir á Carton House vellinum í Írlandi. Guðrún flaug í gegnum niðurskurðinn, og var fimm undir pari eftir fyrstu tvo hringi sína.
Guðrún lék fyrsta hring sinn á 70 höggum og þann annan á 71. Á hringjunum fékk hún átta fugla og þrjá skolla. Járnahögg Guðrúnar reyndust hennar helsti styrkleiki í upphafi móts, en þar sótti hún yfir 3.5 högg á andstæðinga sína.


Seinni hringi mótsins lék Guðrún á 77 og 73 höggum, og endaði jöfn í 44. sæti, á einu undir pari í heildina. Þetta er næstbesti árangur Guðrúnar á tímabilinu, en hún á best 42. sætið í Amundi German Masters mótinu í síðustu viku.


Enski áhugakylfingurinn Lottie Woad sigraði mótið á tuttugu og einu höggi undir pari. Hún sigraði mótið með sex höggum og lék frábært golf alla vikuna.
Þetta er annar niðurskurðurinn í röð sem Guðrún nær á LET mótaröðinni, en hún hefur verið að leika flott golf. Hún situr í 138. sæti stigalistans eftir mót vikunnar.
Næsta verkefni Guðrúnar er með íslenska kvennalandsliðinu. Hún er þjálfari stúlknalandsliðsins sem keppir á Evrópumóti liða í Englandi. Mótið hefst á morgun og verður hægt að fylgjast með gengi landsliðsins á miðlum GSÍ.