Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili, endaði jöfn í 42. sæti á Amundi German Masters mótinu sem fram fór dagana 26.-29. júní.
Mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna (Ladies European Tour), en þetta er sjötta mót hennar á tímabilinu.
Leiknir voru fjórir hringir á Green Eagle Golf Course svæðinu nærri Hamburg. Guðrún flaug í gegnum niðurskurðinn, og var á meðal efstu kylfinga þegar mótið var hálfnað.
Guðrún lék báða fyrstu hringi sína á 71 höggi, tveimur undir pari, og var á tímabili jöfn í 6. sæti mótsins.


Á þeim fékk Guðrún sjö fugla, einungis þrjá skolla og var í góðum málum fyrir seinni helming mótsins.
Seinni hringi mótsins lék Guðrún á 78 og 77 höggum, og endaði jöfn í 42. sæti á fimm höggum yfir pari. Þetta er besti árangur Guðrúnar á tímabilinu, en hún átti best 53. sætið í Dutch Ladies Open mótinu í maí.


Shannon Tan frá Singapúr sigraði mótið á níu höggum undir pari.
Næsta verkefni Guðrúnar er KPMG Women’s Irish Open sem fer fram á Carton House vellinum á Írlandi dagana 3.-6. júlí. Mótið verður fimmta mót Guðrúnar á fimm vikum, og gott tækifæri til að klífa upp stigalistann.