Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur, er í þann mund að hefja leik í sínu fyrsta móti á tímabilinu í Evrópumótaröð kvenna í golfi (Ladies European Tour). Hún leggur af stað kl. 7:50 að íslenskum tíma í Dutch Ladies Open mótinu sem fer fram á Goyer Golf & Country Club í Hollandi. Keppt verður yfir þrjá daga, og leiknar 54 holur.
Guðrún hefur einnig fengið keppnisrétt í Jabra Ladies Open mótinu í næstu viku, sem fer fram á Evian Resort vellinum í Frakklandi. Evrópumótaröð kvenna er stærsta svið atvinnugolfsins utan LPGA mótaraðarinnar og góður árangur í mótunum gæti rutt brautina fyrir fleiri tækifærum.
Guðrún Brá hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra kylfinga. Hún á að baki farsælan feril sem áhugamaður bæði heima og í bandaríska háskólagolfinu, og hefur síðustu ár keppt sem atvinnumaður. Hún hefur leikið um allan heim og verður þetta 54. mót hennar á Evrópumótaröðinni.
Á yfirstandandi tímabili hefur hún þurft að bíða eftir tækifæri til að komast inn á mót á LET mótaröðinni og stefnir að því að nýta tækifærið í Dutch Ladies Open vel.
„Leggst bara mjög vel í mig,“ segir Guðrún í samtali fyrir mótið. „Var tæp að komast inn í það þannig ég er mjög þakklát fyrir tækifærið. Völlurinn er flottur, lúmskur, og maður þarf að vera með gott leikskipulag og skynsemi. Það þarf að staðsetja boltann vel á mörgum holum. Aðstæður hafa verið góðar síðan ég kom og veðrið lítur út fyrir að verða fínt næstu daga. Völlurinn hentar mér vel, hann refsar af teig og grínin eru lítil en þar kem ég sterk inn.“
Guðrún segist nálgast þetta tækifæri með yfirvegun og metnaði. Hún horfir ekki of langt fram í tímann, heldur einbeitir sér að hverjum degi og hverri holu.
„Ég horfi bara á einn dag í einu í rauninni og geri mitt besta. Ef mér gengur vel í þessum mótum þá getur þetta opnað dyr inn á LET áfram í sumar. Þannig ég ætla að nýta mér þetta tækifæri.“
Hver er þinn helsti styrkleiki í golfinu þessa dagana?
„Járnahöggin hafa verið mjög stöðug síðustu dagana, þannig vonandi kem ég mér í fullt af fuglafærum næstu daga.“
Ef Guðrún nær góðum árangri á Dutch Ladies Open getur það haft áhrif á hvort hún komist inn á fleiri mót á tímabilinu og tryggt sér aukinn þátttökurétt á LET. Hún ætlar sér að nýta tækifærið og verður spennandi að fylgjast með henni á næstu dögum.