Evrópumót golfklúbba í kvennaflokki fór fram á Green Resort Hrubá Borša golfvellinum í Slóvakíu dagana 2.-4. október. Golfklúbburinn Keilir varð Íslandsmeistari golfklúbba 2025 eftir frábæran úrslitaleik fyrr í sumar, og vann sér með því þátttökurétt í mótinu. Alls voru 19 golfklúbbar skráðir til leiks.
Elva María Jónsdóttir, Anna Sólveig Snorradóttir og Fjóla Margrét Viðarsdóttir skipuðu lið GK. Leiknir voru þrír hringir í höggleik og töldu tvö bestu skorin í hverri umferð. Guðrún Brá Björgvinsdóttir var á staðnum sem þjálfari og liðsstjóri, en hún var einnig í sigursveit GK í sumar. Einungis áhugakylfingar gátu tekið þátt í mótinu.
Smelltu hér fyrir úrslit mótsins
Eftir fyrsta hring mótsins var lið Keilis í 15. sæti, á átján höggum yfir pari. Fjóla Margrét lék á 80 höggum en Anna og Elva léku báðar á 82 höggum.

Annar hringurinn reyndist sá besti hjá liði Keilis. Þar voru þær jafnar með þriðja besta skor dagsins, upp á sjö högg yfir pari. Elva María lék þar best, á 75 höggum, Fjóla Margrét lék á 76 höggum og Anna Sólveig á 82 höggum. Með árangrinum stukku þær upp í 11. sæti mótsins.

Þriðja hringinn lék íslenska liðið einnig vel og skiluðu inn skori upp á níu högg yfir par. Fjóla Margrét lék á 76 höggum, Anna Sólveig á 77 höggum og Elva María á 82 höggum. Tólfta sætið raunin.

Flottur árangur hjá liði Íslandsmeistaranna, óskum þeim til hamingju!




