Í tilefni 90 ára afmælis Golfklúbbs Akureyrar á árinu hélt klúbburinn afmæliskaffi í golfskálanum að Jaðri þann 6. júlí.

Fjöldi fólks var viðstaddur þegar sex GA félagar voru gerðir að heiðursfélögum klúbbsins. Allir hafa þeir unnið einstaklega gott og óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn í fjölmörg ár.
Golfklúbbur Akureyrar (GA) var stofnaður 19. ágúst 1935 og er næstelsti golfklúbbur landsins. Upphaflega hafði klúbburinn aðstöðu á Gleráreyrum, þar sem síðar reis Slippstöðin, og þar var komið upp 6 holu golfvelli. Fyrsta meistaramót GA fór fram þar árið 1938.
Árið 1945 flutti klúbburinn starfsemi sína að Þórunnarstræti, þar sem gerður var 9 holu völlur. GA var með aðstöðu á þeim stað allt til ársins 1970, þegar starfsemin færðist að Jaðri, núverandi heimavelli klúbbsins. Þar var upphaflega byggður 9 holu völlur sem var síðar stækkaður í 18 holur árið 1981.
Golfklúbbur Akureyrar hefur alla tíð verið á meðal þeirra fremstu á landsvísu. Uppbygging síðustu ára hefur skapað nýja ásýnd á svæðið, og hefur núverandi stjórn og starfsmenn klúbbsins unnið frábært starf.
Ekkert væri þó mögulegt án ómetanlegrar aðstoðar sjáfboðaliða. Sex þeirra voru gerðir heiðursfélagar klúbbsins, líkt og kemur fram í tilkynningu GA.
David Barnwell
Við í GA höfum verið svo lánsöm í gegnum árin að hafa haft mjög góða golfkennara sem hafa skilið eftir sig stór spor í okkar sögu. Það er þó á engan hallað að halda því fram að sá aðili sem við gerum nú að heiðursfélaga hafi markað einna stærstu sporin í sögu GA hvað þetta varðar.
Hann kom hingað fyrst snemma árs 1986 og var ráðinn í nokkra mánuði til að byrja með. Staðan er nú þannig að hann er ennþá Íslandi og vill hvergi annars staðar vera, nema kannski þegar veðrið er mjög vont. Hann lyfti okkar starfi hvað varðar golfþjálfun upp á næstu tröppu og úr urðu til fjöldinn allur af góðum kylfingum á öllum aldri. Íslandsmeistaratitlarnir urðu fjölmargir í einstalings- og sveitakeppnum, þar með talið í karlaflokki á Íslandsmóti í höggleik árið 1994, 1998 og 2002.
En David gerði fleira en að kenna kylfingum á öllum aldri golf, hann lagði einnig mjög mikið af mörkum hvað varðar aðra þætti okkar starfs. Þar má til dæmis nefna varðandi markaðsetningu á Arctic Open, hann rak einnig golfbúð, kylfuverkstæði og vetraraðstöðu klúbbsins til margra ára og svo mætti áfram telja. Hann er því sannur frumkvöðull í okkar starfi sem við erum mjög þakklát fyrir að hafa sem hluta af okkar sögu.
Þórhallur Pálsson
Þórhallur er búinn að vera í starfi klúbbsins í áratugi, hann hefur komið að stjórnarstörfum og var um tíma framkvæmdastjóri klúbbsins. Þórhallur hefur ávallt verið GA til staðar, sama hvort það er til þess að rifja upp í sögu klúbbsins, vallarins eða í rafmagnstöflunni. Þórhallur hefur í gegnum árin lagt margskonar vinnu af hendi hér en að langmestu leyti hefur hann lagt allt rafmagn sem þurft hefur að leggja. Þórhallur er GA út í gegn og viljum við fyrst og fremst sína honum þakklæti fyrir það og allt það óeigingjarna starf sem hann hefur unnið hér á svæðinu.
Guðmundur E. Lárusson
Guðmundur kom fyrst að stjórnarstörfum á áttunda áratugnum, en fyrst og fremst langar okkur að þakka fyrir allt það óeigingjarna starf sem hann hefur unnið hér við endur uppbyggingu húsa og allar þær nýbyggingar sem hér hafa risið. Guðmundur er alltaf boðinn og búinn að hjálpa til og er með fyrstu mönnum þegar nýtt verkefni birtist. Óhætt er að segja að það er enn kraftur í kalli.
Hafberg Svansson
Hafberg er einn af þeim sem unnið hefur hér að uppbyggingu þessara mannvirkja, bæði síðasta áratuginn, og eins hér áður fyrr þegar skálanum var breytt og hann endurbyggður. Til eru sögur af honum þegar hann og fleiri gistu hér í skálanum í stað þess að fara heim á milli vinnudaga í stækkun skálans. Hafberg hefur síðustu ár verið afar iðinn við að aðstoða við uppbyggingu síðustu ára og er það ómetanlegt.
Heimir Jóhannsson
Heimir hefur starfað í vallarnefnd jafn lengi og elstu menn muna. En fyrst og fremst viljum við þakka alla þá vinnu sem hann hefur lagt að mörkum við uppbyggingu á húsakosti félagsins. Heimir hefur lagt til gríðarlega vinnu og geislar af honum áhuginn á að hér sé öll aðstaða hin besta. Hann er vakinn og sofinn yfir verkefnum hér og slíkt er ómetanlegt að hafa. Gaman er að segja frá því að Heimir er fyrsti aðilinn til að fara holu í höggi á Jaðarsvelli, á 6.braut (núverandi 8. braut).
Magnús Ingólfsson
Magnús hefur unnið hér að uppbygging og viðhaldi þessara húsa og lagt þar af mörkum endalausa vinnu og með því verið mjög mikilvægur hlekkur í allri þeirri uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað síðustu ár. Magnús líkt og Heimir hafa fengið viðurnefnið „verkstjórarnir“ og hefur stýrt faglega hlutanum í skipulagningu og frágangi, enda nákvæmnismaður með eindæmum. Magnús er það iðinn að hann stundar strandveiði í dauða tímanum. Magnús er dugnaðarforkur.
Forseti GSÍ, Hulda Bjarnadóttir, mætti ásamt framkvæmdastjóra GSÍ, Brynjari Geirssyni og Arnari Geirssyni þjónustustjóra. Hulda og Brynjar færðu GA fallega mynd í tilefni stóráfangans og Hulda þakkaði Golfklúbbi Akureyrar fyrir samstarfið undanfarin ár.

Golfsamband Íslands óskar Golfklúbbi Akureyrar til hamingju með árin 90!